Fór á tjúttið með vinnufélögunum á föstudagskvöldið og það er sko langt síðan síðast. Fórum út að borða á Eldsmiðjunni og svo var haldið í sal þar sem búið var að græja partý stemmningu með öllu. Jónsi í Svörtum fötum var trúbador og svo var bara disco og læti. Hrikalega gaman, dansaði af mér rassinn og náði samt að vera komin heim á skikkanlegum tíma!
Þakkaði fyrir hvað ég var ofur skynsöm morguninn eftir þegar ég var að græja litlu dömuna mína í fimleika en þar vorum við mættar á slaginu 9. Ég var búin að ákveða að sleppa öllum æfingapælingum og bara sjá hvernig dagurinn yrði og það varð úr að við mæðgur fórum í Kringluna beint eftir fimleika og þar krúttuðumst við fram að hádegi. Við versluðum heilmikið á vask dögunum í Hagkaup, nú er búið að græja kuldaskó fyrir veturinn og svo keypti ég nokkrar litabækur, það er algjörlega málið hjá minni núna. Settumst svo á Kaffitár en þar eru mamma og pabbi vön að hitta sína félaga á laugardögum og við slógumst í hópinn. Ekki slæmt að sötra kaffi og narta í súkkulaðibitakökur í semi-rykugu ástandi...
Seinni partinn var ég svo komin topp form og ákvað að skjótast út í smá hlaupatúr. Veðrið var svo gott og ég klukkulaus og áður en ég vissi af var ég komin langleiðina með sunnudagshringinn okkar þannig að ég ákvað bara að klára hann, 18 km, ánægð með gömlu! Kom heim rétt um kvöldmatarleytið og dreif þá krakkana með mér í sund í Árbæjarlaug. Þeim fannst voða spennandi að vera svona seint á ferli og voru alveg til fyrirmyndar, Gabríel drauma-stóribróðir sem fór með systur sína í heilmargar ferðir í rennibrautina. Eftir sund fengum við okkur bita á Subway og stoppuðum svo í Hagkaup á leiðinni heim til að ná í pínu nammi, enda nammidagur. Skriðum heim rétt fyrir hálf tíu en þá var Þórólfur heldur betur farin að sakna okkar...
Fann engan fiðring þegar ég hugsaði um Hjartadagshlaupið og hreinlega nennti ekki að fara í það. Sendi bóndann af stað með árnaðaróskum, setti upp svuntuna og bakaði lummur í staðinn. Bauð svo í lummukaffi og var alsæl að vera heima hjá mér. Seinni partinn tók sig upp gömul hreyfingarþörf og þá dreif ég mig niðrí laugar og ákvað að taka smá stöðupróf í 1000 m skiði. Ég hoppaði út í laug og byrjaði strax að taka tímann með snúningum í kafi (er mjög léleg í þeim n.b.). Synti 1000m á 21:06 og það eru miklar framfarir bara á síðustu vikum frá því ég byrjaði á sundæfingunum. Nú ætla ég að taka svona stöðupróf á sunnudögum en reikna með að hita aðeins upp fyrst og snúa venjulega næst til að fá betri mynd af stöðunni. Ætla pottþétt undir 20 mínútur fyrir jól! (held ég...).
Agga frænka er engum lík. Ég heyrði í henni fyrir nokkru þegar hún átti afmæli og sagði að ég þyrfti nú endilega að bjóða henni í kaffi einhvern sunnudaginn. Á laugardagskvöldið hringdi mín og sagðist ekki geta komið í kaffi á morgun..., hvort það væri ekki bara betra að hún kæmi í mat :) Ekki spurning, frábær hugmynd! Ruslaði upp veislu úr frystinum, það eina sem þurfti að kaupa var sýrður rjómi og sítróna, hitt var til eða hægt að ná í út í garð. Ofnbakaður lax með sítrónu og graslaukssósu, steiktur humar í hvítlaukssmjöri og nýsoðið hangikjöt (afgangur sem ég hafði fengið frá mömmu og pabba) Surf and turf þema, LOL. Frönsk súkkulaðikaka með rjóma og rifsberjum úr garðinum, voilà!
Frábær öðruvísi helgi
Engin ummæli:
Skrifa ummæli