10 daga hlaupafrí samkvæmt fyrirmælum þjálfarans. Þetta er í fyrsta sinn frá því ég fór að hlaupa fyrir 8 árum að ég tek mér svona langt hlé frá hlaupunum án þess að þurfa þess! Það þýðir bara fullt af tíma í annað, heill hellingur af klukkutímum og það er æði. Ég er búin að hjóla og synda aðeins meira en venjulega en ég er líka búin að hanga með börnunum mínum, já miklu meira en venjulega og það er það allra besta.
Þórólfur fór í veiði með vinnufélögunum um helgina þannig að ég var ein með krakkana. Á föstudagskvöldið fékk vinur hans Gabríels að gista hjá okkur. Það var þræl gaman (og fróðlegt) að hanga með strákunum... Við byrjuðum að horfa á bíómynd sem ég valdi reyndar sjálf (Fishtank) sem fjallar um uppreisnargjarna unglingsstúlku. Hálfa leið inní myndina sá ég mér þann kost vænstan að slökkva á henni, þvílíku 'ástar' senurnar upp um alla veggi, var ekki alveg að passa við félgsskapinn!!! Strákarnir fengu þá að velja og ég man ekkert hvað það var en við hámuðum í okkur popp og höfðum það kósý.
Á laugardagsmorgun fór ég með Lilju í fyrsta tímann í fimleikum hjá Ármanni. Hún smellpassaði inní þetta prógramm, er komin með þjálfun í að hlýða kennurunum úr ballettímunum og er svakalega sterk og spræk. Hrikalega gaman að fylgjast með henni blómstra þarna.
Brunuðum heim eftir fimleikana og náðum í strákana og héldum svo austur í bústað. Fór Þingvallaleiðina í góða veðrinu, ótrúlega fallegt og stákarnir töluðu um að umhverfið væri eins og í Lord of the Rings, fannst þetta rosa flott. Ég hjólaði leiðina frá Þingvöllum í Grímsnesið í Landskeppninni í sumar, annars hefði ég örugglega ekki fattað að fara þessa leið. Losuðum okkur við dótið í bústaðinn og fíruðum upp í kofanum áður en við héldum á Selfoss í hádegissnarl og innkaupaferð.
Allt dettur í annan gír í sveitinni og dásamlegt að hafa engin plön. Mamma og pabbi kíktu í síðdegiskaffi. Við fórum í berjamó og strákarnir reyndu að höggva eldivið fyrir kvöldið. Renndum svo aftur inná Selfoss seinni partinn og kíktum í kaffi hjá vinum okkar, keyptum kubb í arininn (skógarhöggsmennirnir ekki alveg að standa sig :), sykurpúða til að grilla og græjuðum afþreyingu fyrir kvöldið (Tvíhöfði á DVD). Ákváðum að fara frekar á Kaffi Krús og smakka eldbakaðar pizzur en að grilla í bústaðnum og sáum ekki eftir því, mæli með þeim.
Lilja fann listakonuna í sér og málaði eins og vindurinn og prófaði sig áfram með kroppsmálningu. Gerði fótaför og tattú á sig og ég veit ekki hvað. Engin sturta í bústaðnum þannig að þá er bara að notast við þá aðstöðu sem er fyrir hendi:
Engin hlaupaæfing á sunnudaginn þýddi að við gátum sofið eins og sveskjur fram eftir og svo skriðum við Lilja upp í sófa og kúrðum þangað til strákarnir vöknuðu. Það var hellidemba úti, fullkomin afsökun fyrir að gera ekki neitt nema í mesta lagi að prjóna aðeins og borða. Dóluðum okkur í bæinn eftir hádegið en Lilja fór í afmæli til vinkonu sinnar og svo tókum við á móti Þórólfi úr veiðiferðinni. Frábær hlaupalaus helgi og sé fram á skemmtilega hlaupalausa viku. Carpe Diem!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli