Hreyfing fyrir allan peninginn í um helgina. Er laus úr hlaupahvíldinni og fór rúma 10 km í gær. Í morgun fór ég Hálftímann og svo tók ég 1200m sundæfingu á eftir. Ég er svei mér þá búin að synda rúma 8 km í vikunni, sennilega meira en samtals síðustu árin... Það sem var samt toppurinn hreyfingalega séð, að eftir hádegi fór ég loksins, loksins aftur á Esjuna en ég hef ekki farið síðan sumarið 2008.
.
.
Gabríel var í afmæli og Þórólfur fór með afa Þór og Lilju í Kolaportið svo ég var ein í kotinu. Leit út um gluggann og áður en ég vissi af var ég kominn í skóna og út í bíl. Ég hef tvisvar labbað upp Esjuna (annars alltaf hlaupið :), í bæði skiptin með börnin mín. Þá fer mesti tíminn í að hvetja, ýta og tosa unguna upp og maður nýtur þess öðruvísi. Nú var ég bara alein með sjálfri mér, gat tekið þetta á mínum hraða, valið mína leið og notið þess á minn hátt. Ég fór borgaralega klædd til að missa mig ekki í að hlaupa...
Ég fór hægra megin upp, lengri leiðina og var akkúrat klukkutíma upp á topp. Ég hef bara einu sinni áður farið alla leið upp á topp og það var fyrir mörgum árum síðan. Mér fannst leiðin frá Steini ansi óljós á köflum og var vappandi fram og til baka þangað til ég fann mér mann til að elta. Frábært veður og útsýnið engu líkt. Var í samfloti við manninn sem ég fann á leiðinnu upp, alvanur Esjumaður, langleiðina niður og þá fórum við vinstra megin. Síðasta hlutann tóku fæturnir af mér völdin og hlupu af stað, það er bara miklu erfiðara að reyna að halda aftur af sér en að láta sig rúlla niður. Var komin heim á undan fólkinu mínu, alsæl með Esjuferðina mína.'
Toppurinn
Engin ummæli:
Skrifa ummæli