31. ágú. 2010

Að vera eða ekki vera...

Ironman!  Ja, hérna hér.  Enn einu sinni hefur mér tekist að gera allt vitlaust í þríþrautarheiminum, þetta er ekki einleikið.  Í þetta sinn voru það pælingar mínar um það hvort það væri hægt að kalla sig 'Ironman' án þess að taka þátt í keppni sem tilheyrir 'Ironman' seríunni.  

Ég hafði bara aldrei pælt í því áður og vissi ekki einu sinni að það væri til sérstakar Ironman keppnir og svo aðrar sem ekki tilheyrðu seríunni og hvaða keppnir tilheyrðu hverju...  Heyrði það fyrst um þetta talað í kjölfarið á Challenge Copenhagen.  Þegar ég fór að lesa þríþrautarreglurnar þá sá ég að það eru bara ákveðnar keppnir sem fá að nota orðið 'Ironman', það hafði ég ekki hugmynd um.   Mér fannst samt fínt að komast að því núna af því að ég held að mig langi frekar til að taka þátt í Ironman sem tilheyrir Ironman seríunni en ekki, það er nú allt og sumt.  Ég held að það séu líka fleiri sem eru að spá í þetta fyrir sig persónulega og geta þá tekið upplýsta ákvörðun um hvernig keppni þeir vilja taka þátt í.

Ironman er semsagt skrásett vörumerki en í þríþrautarsamfélaginu tíðkast það að kalla þá sem lokið hafa sambærilegri þraut líka Ironman.  Það er bara fínasta mál, hver sem er má kalla sig hvað sem er fyrir mér og mér finnst alveg óborganlegt að lesa þessa færslu og komment.  

Ég var bara pínulítið að leika mér með þessa hugsun eins og mismuninum á að taka þátt í þríþraut í Ólympískri vegalengd og að taka þátt í þríþraut á Ólympíuleikunum.  Smá munur :)   Ég hef sjálf aldrei tekið þátt í Ironman eða Ironman vegalengd og þekki ekkert hefðirnar.  En fjandinn hafi það, ég má nú alveg spá í þetta án þess að fólk missi sig.   

Hvernig í ósköpunum ætti það að vera 'mér í hag' að allar keppnir í Ironman vegalengd séu ekki titlaðar Ironman keppnir!!!  Það er mér barasta mjög mikið í óhag þar sem það fækkar heldur betur þeim keppnum sem maður gæti, ef til vill, einhvern daginn (ef maður er rosa duglegur að æfa) farið í og fengið bol sem stendur á Ironman og er með Ironman logoinu.  Mig langar í þannig!   Mér er slétt sama hvað aðra langar í og hvað þeir kalla sig, í alvöru talað krakkar.  

Að varpa fram spurningu á alls ekkert skilið við augljósar rangfærslur og hvernig í ósköpunum geta þessar pælingar verið annað hvort 'hálf fullt eða hálf tómt glas'.  Ég á ekki eina einustu krónu með gati.

Ég myndi barasta ekkert vera að lesa mínar pælingar ef mér fyndist þær algjört bull og ég færi alveg í flækju í hvert sinn sem ég opnaði munninn um eitthvað málefni, sem er svo sannarlega verið að ræða út um allt og pískra um í skúmaskotum.  Suss þvílík tímasóun, í guðanna bænum farið bara frekar á æfingu, plís!

Eða er kannski málið að pæla í því af hverju þetta er svona svaðalega viðkvæmt...  Hmfff...

  


Fyrsta sundæfing vetrarins

Er búin að vera að reyna að hafa mig í það að taka ákvörðun um að æfa sund í vetur.  Ég mikla sundið alltaf fyrir mér, finnst erfitt að koma mér af stað og sé mig fyrir mér skjálfandi á bakkanum...  Ég tók til fötin mín í gærkvöldi, setti fram allt dótið og stillti vekjarann á 6:10.  Ég sagði nú samt bónda mínum áður en ég fór að sofa að stefnan væri að fara, ég myndi svo sjá til þegar ég vaknaði.

Ég vaknaði áður en klukkan hringdi og var bara spræk.  Þegar á hólminn var komið var þetta ekkert mál, sturturnar eru góðar og það er hlýtt og fínt inni í Laugardalslauginni.  Ég held ég hafi ennþá verið að jafna mig á námskeiðinu í vetur í Breiðholtslauginni en þá vorum við úti í brunagaddi, kvöld eftir kvöld og ekkert nema  vonlausar kaldar sturtur á eftir.  Það glömruðu í manni tennurnar og það er fátt sem mér er eins illa við og að vera kalt.

Mér finnst alltaf gaman að synda þegar ég er komin af stað, maður nær einhvern veginn stóískri ró í vatninu, svona einn með sjálfum sér.  Remí er frábær þjálfari og það er svo miklu skemmtilegra að brjóta upp sundið með sprettum og drillum.  Synti 1800 m og kom upp úr endurnærð og mótiveruð fyrir veturinn en það verða æfingar tvisvar í viku fram á sumar.

Verð að skella inn einni krúttlegri mynd í lokin.  Lilja fékk Katrínu vinkonu sína í heimsókn um daginn og þær klæddu sig upp í ballerínukjóla. Þórólfur spilaði svo undir á píanóið meðan þær dönsuðu.  Alveg með taktana á hreinu...


Þær voru orðnar þvílíkt ringlaðar, alveg kostulegt að sjá mína :)



28. ágú. 2010

Lög og reglur :)

Fékk sendar reglur breska þríþrautarsambandsins vegna vinnu sem er í gangi við að semja íslenskar þríþrautarreglur.  Mér finnst mjög gaman að lesa þetta yfir og er nokkrum sinnum búin að segja við sjálfa mig 'já... nákvæmlega!!!'.  Tók út nokkra kafla sem mér fannst sérstaklega góðir, voilá:

1.4 These rules may not be altered by individual organisers. Local conditions may warrant amendment by a BTF national or regional official; applications for such changes must be submitted in writing to the Rules and Technical Committee (R&T) and, where granted, any such variations must be clearly published to all competitors at least seven days prior to the event and must be covered in all race briefings and safety documents.

NB The terms ‘Olympic’ and ‘Ironman’ MUST NOT be used unless they refer to events organised by the International Olympic Committee or the World Triathlon Corporation respectively.

8 Banned Equipment
8.1 Any equipment that acts as an impediment to hearing or concentration is prohibited from use during an event (including transition). This includes, but is not limited to, mobile telephones (which should be switched off if stored in transition), personal stereos and MP3 players (see Section 30, Penalties).

20 Special Rules
A race organiser, technical delegate or official may approve the addition of special rule/s for a particular race provided that each additional special rule:
a. does not conflict with another competition rule
b. is made available in written form and is announced to the participants before the event
c. and the reasons for its inclusion are advised to the appropriate event sanctioning body for approval prior to the event.

In the case of special rules introduced due to factors that arise on the day, the appropriate event sanctioning body must be notified the day after the event.

21.6 It is the competitor’s responsibility to know and correctly complete the full course of the event.

22.7 No individual support by vehicle, bicycle or on foot is permitted except as provided by the organisers. Competitors may not receive any assistance other than that provided by the race organiser.

26.2 During the event, competitors are individually responsible for the repair of their machines.

Kíkti svo í gamni líka á IRONMAN reglurnar:

22. Each athlete must be individually responsible for repair and maintenance of their own bike. Each athlete should be prepared to handle any possible mechanical malfunction. Assistance from official race personnel is permitted.

25. HEADSETS OR HEADPHONES ARE NOT ALLOWED DURING ANY PORTION OF THE EVENT.

14. The sole responsibility of knowing and following the prescribed cycling course rests with each athlete. No adjustments in times or results shall be made for athletes who fail to follow the proper course for any reason whatsoever.

5. The sole responsibility of knowing and following the prescribed running course rests with each athlete. No adjustments in times or results shall be made for athletes who fail to follow the proper course for any reason whatsoever.

21. No individual support is allowed. Ample aid and food stations will be provided. Friends, family members, coaches, or supporters of any type may NOT bike, drive, or run alongside athlete, may not pass food or other items to athlete and should be warned to stay completely clear of all athletes to avoid the disqualification of a athlete. It is incumbent upon each athlete to immediately reject any attempt to assist, follow, or escort.

Nb. Öll stílbrigði í texta, svo sem bold og hástafir eru svona í reglunum sjálfum og ekki frá mér :)

Mér sýnist að ástæðan fyrir því að ekki má nota orðið 'Ironman' í öðrum keppnum en þeim sem eru í Ironman seríunni, vera sú að það gilda sérstakar reglur í þeim og þá er hægt að bera saman árangur á milli keppna (þrátt fyrir mismunandi brautir).  Í Ironman seríunni eru notaðar grunnreglur USAT (Bandarísku þríþrautarreglurnar) með nokkrum sérstökum Ironman viðbótum. 

Í öðrum þríþrautum í sömu vegalengd gilda aðrar reglur, t.d. eins og í Challenge Copenhagen og þar af leiðandi geta þeir ekki notað orðið 'Ironman', enda kemur það hvergi fram á þeirra síðu.  N.b. nú er ég ekki að gera lítið úr afrekum þeirra sem fóru í Challenge Copenhagen, það er bara þrekvirki að klára svona langa þríþraut og ekkert annað en... mér sýnist ekki vera hægt að kalla sig Ironman, nema að maður ljúki Ironman keppni eða hvað? 

Ég get nú samt alveg séð fyrir mér að það sé í fínu lagi að nota heill og hálfur járnkarl fyrir okkar þrautir hérna heima, með okkar íslensku reglum og ekki reglum :).  Nú og kannski einhvern daginn verðum við orðin svo pro að við getum orðið hluti af Ironman seríunni, hver veit?




27. ágú. 2010

Lítill bróðir í Kanada

Fengum aldeilis stórar fréttir í gær.  Gabríel eignaðist lítinn, já alveg pínkulítinn bróður í Kanada!  Við áttum nú ekki von á honum fyrr en í nóvember en hann var eitthvað að flýta sér í heiminn.  Hann var bara 3 pund og þarf sennilega að vera í einhverjar vikur á spítala til að safna kröftum.  Hann er í hitakassa en getur núna andað sjálfur og er með sterkan hjartslátt svo þetta lítur allt saman vel út.

Ég fór í 'Shop till you drop' leiðangur í gærkvöldi með vinkonu minni.  Við gerum þetta svona tvisvar, þrisvar á ári, fáum okkur snarl og röltum um Smáralindina, Kringluna eða á Laugaveginum.  Þetta eru 3-4 tíma túrar í það minnsta...  Í gær var alveg sérstaklega gaman hjá okkur og við komum flissandi heim.  Byrjuðum á að fá okkur að borða á Energia og ég fékk mér æðislega gott kjúklinga, kókos, karrý salat með nan brauði, nammm!  Fann nýja búð í Smáralindinni sem heitir Imperium og þar komst ég í flottustu gallabuxur bæjarins og haldið ykkur fast, þær kostuðu frá 5-8 þúsund!  Þjónustan var líka frábær, afgreiðslukonan var ekkert að láta mig eyða tímanum í að máta einhver vonlaus snið fyrir mig heldur sagði mér það strax ef buxurnar voru alltof lágar í mittið eða myndu vera of þröngar yfir lærin.  Þvílíkur tímasparnaður og margföld ánægja að máta bara flíkur sem maður passar í!

Fann þessa mynd á innranetinu hjá okkur en hún var tekin rétt eftir hlaupið hjá okkur á laugardaginn:

26. ágú. 2010

Dularfulla færslan sem hvarf...

Ég var búin að ákveða að láta þetta vera... en ég gefst upp :)

Fyrir nokkru hringdi ritarinn í mig og við áttum frábært spjall um hvað við værum bæði æði, þó svo að við værum með ólíkar skoðanir á hinu og þessu.   Í samtalinu sagði hann mér líka frá því að það væri færsla í Dagbók ritarans sem hann vildi láta mig vita af eða aðallega vara mig við.  Einhver hafði sett inn komment  þar sem farið var í manninn en ekki boltann (og ég var þá maðurinn :).  Ég var svo pollróleg yfir þessu að ég spurði ekki einu sinni hvað um var rætt og ætlaði bara að kíkja á þetta í rólegheitum síðar.

Ég komst í mitt besta stríðnisskap og svei mér þá ef ég varð ekki pínulítið eins og hann Láki sem fannst gaman að vera vondur.  Það er nefnilega þannig að það er bara alls ekki neitt sem ég get ekki höndlað úr fortíðinni, ekki eitt einasta atvik sem ég get ekki horfst í augu við og þá er maður ekkert hræddur viði svona lagað.

Og svo fór ég að skoða síðuna.  Ekkert merkilegt eða ómerkilegt um mig, hmfff...  Ég hélt að ég hefði misskilið eitthvað og að færslan ætti eftir að koma inn, en nokkrum dögum síðar bólaði ekki á neinu skítkasti!  Ég sendi póst á ritarann og rukkaði færsluna, var alveg búin að sjá fyrir mér beinan link á svínarí-ið og allt en þá kom babb í bátinn.  Ritarinn hafði fjarlægt færsluna og kommentin af síðunni sinni.  Ég notaði alla mína kvenlegu klæki til að fá hann til að setja færsluna aftur inn (stríddi honum með því að kalla hann ´Herra galopið athugasemdakerfi' og ég veit ekki hvað...) en ekker dugði, honum var ekki haggað.   Þá ætti málið að vera dautt eða hvað.  Nei... þannig er það bara ekki, það er ekki hægt að stroka eitthvað út og halda að þá sé enginn skaði skeður.  Um daginn var ég spurð hvort ég hafi séð þessa færslu og það sem meira er, hvort ég hafi beðið ritarann að fjarlægja hana!   

Neihhhhh... það er of mikið fyrir mig.  Ég fór að grenslast fyrir um hvað málið snérist og í gegnum félaga mína sem höfðu lesið þetta, fékk ég að vita að í kommentinu við færsluna (sem enginn mundi hvað fjallaði um) var annars vegar talað um meinta aðstoð Ívars við mig á Laugaveginum, þegar ég vann 2008 og hins vegar meinta aðstoð við mig í Reykjavíkur maraþoni árið 2005 þegar ég hljóp mitt annað maraþon.  Í báðum tilfellunum var um algjörar rangfærslur að ræða og sá sem skrifaði þessar nafnlausu athugasemdir sá greinilega eftir því og bað um að láta eyða þeim út, líka nafnlaust að mér skilst.  Ég er að sjálfsögðu búin að hafa samband við ritarann, vin minn og láta hann vita að ég myndi rifja upp þessi hlaup hérna hjá mér og hvers vegna.  Bullandi lærdómskúrfa!

Það vill svo vel til að ég á Laugavegssöguna mína á gamla blogginu, vessgú!  Ég myndi lesa alla söguna því hún er bara stór skemmtileg en leiðir okkar Ívars (sem n.b. var skráður í hlaupið og lauk því um 10 mínútum á eftir mér) lágu saman í mjög skamma stund frá Emstrum eða á að giska 700 m (+/- hundrað :).  Við Örn (sem líka var skráður í hlaupið) vorum í samfloti 2-3 km en þá lenti hann í krampa vandræðum og dróst aftur úr.  Hann lauk hlaupinu tæpu korteri á eftir mér.

Ég á líka RM söguna mína en þar verð ég að hafa smá inngang.  Málið var að við hjónin höfðum ákveðið að hlaupa saman annað maraþonið okkar og stefndum á sub 3:30.  Við vorum þá félagar í Laugaskokki og þegar við mættum í Miðbæjarskólann rétt fyrir ræsingu þá tilkynnti formaðurinn okkur að það væri maður sem myndi hjóla með okkur seinni helminginn af maraþoninu.  Við höfðum aldrei séð manninn fyrr og ekkert heyrt af þessum plönum.  Ég man að við vorum alveg gáttuð á að einhver sem þekkti okkur ekkert ætlaði að eyða deginum í að hjóla þetta með okkur!  Við fengum að vita að búið var að útdeila hjólurum á alla sem ætluðu að hlaupa heilt maraþon í hópnum og mig minnir reyndar að okkar hjólari hafi átt að fylgja einhverjum í hálfu maraþoni áður en hann færi að huga að okkur.  

Það sem gerðist síðan óvænt (fyrir utan að fá úthlutað hjólara...) var að eftir hálft maraþon, í þann mund sem hjólarinn fann okkur, þá skildu leiðir okkar Þórólfs.  Honum leið illa og gekk ekki að halda hraðanum en ég hélt áfram samkvæmt plani.  Nú voru góð ráð dýr hjá hjólaranum, en hann hefur að öllum líkindum hjólað nokkur maraþon þennan dag vegna þess að það varð alltaf lengra og lengra á milli okkar Þórólfs og hann hjólaði fram og til baka, fram og til baka...  

Við höfðum nýtt okkur þjónustu RM um að hafa eigin drykki og gel á drykkjarstöðvunum og hjólarinn hjálpsami hjólaði á undan á tvær drykkjarstöðvar og stóð svo teinréttur með brúsann minn og gelið, við hliðina á starfsmanni á drykkjarstöðinni og með þeirra leyfi geri ég ráð fyrir.  Hann hjólaði svo á eftir mér og tíndi upp brúsa sem ég henti frá mér (fyllti meira að segja á einn brúsa áður en hann áttaði sig á því að á næstu drykkjarstöð vorum við með tilbúna brúsa...), svo hjólaði til baka til Þórólfs og athugaði hverning honum leið og svona gekk þetta.   

Ég man að þegar ég skrifaði söguna mína um RM 2005 þá var mér mjög umhugað um að sýna hjólaranum okkar þakklæti og skrifin voru lituð af því að við hjónin vorum eiginlega alveg miður okkar að hafa gert manninum þetta svona erfitt fyrir.  Ég setti þess vegna inn sérstakan þakklætiskafla tileinkaðan honum í lokin á sögunni.  En hérna er RM 2005 sagan, mér finnst hún líka skemmtileg en eftir þetta hlaup áttaði ég mig á því í fyrsta sinn að ég gæti kannski einhvern daginn orðið eitthvað meira en meðal hlaupari og það var góð tilfinning!

Meginástæða þess að ég skrifa þessa færslu er nú samt sú að skýra í leiðinni hvers vegna ég er ekki með 'galopið' athugasemdakerfi.  Ég lít nefnilega þannig á að ég beri ábyrgð á því sem birt er á minni síðu og hér mun hvorki vera birt skítkast, rógur eða rugl.  Skemmtileg, krefjandi, áhugaverð, erfið, vingjarnleg og  asnaleg komment eru hjartanlega velkomin hvenær sem er.  

25. ágú. 2010

Klifurhúsið

Í gær fór ég í fyrsta skipti á ævinni í klifurhús.  Við Gabríel fórum með góðri vinkonu minni og syni hennar, þau sýndu okkur grunnatriðin og hjálpuðu okkur af stað.  Vá hvað þetta er erfitt!!!  Fyrstu veggirnir voru í lagi, þegar maður var óþreyttur og ég gat treyst á kraftana, en þar sem tæknina vantaði algjörlega þá gekk fljótt á þá.  Ég sé að það er stórhættulegt fyrir manneskju eins og mig að koma nálægt þessu.  Þurfti nefnilega að gefast upp í svörtu brautinni og nú hugsa ég ekki um annað en að komast aftur og klára hana.  Viss um að ég komist hana óþreytt.  Og svo er það kaðlstiginn.  Hann var þvílíkt freistandi, dinglaði fyrir framan mann mjög sakleysislegur en þar er málið að geta klifrað bara á höndunum alla leið upp í loft, snerta grænan ferhyrning og fara aftur niður.  Ég held að mig hafi dreymt græna ferhyrninginn í nótt...  Ég skil líka vel af hverju klifrarar eru svona grannir, maður blótar aukakílóinu í sand og ösku þegar maður hangir á fingrunum og það er eins og það sé búið að festa blý í rassinn á manni!  Á leiðinni út sá ég fullt af coverum á klifurblöðum og þvílíku skvísurnar, hangandi utan á einhverjum klettum, hrikalega þokkafullar.  Mig langar að vera svoleiðis þegar ég verð stór :)

Fékk sendingu frá skipuleggjendum Vesturgötunnar í síðustu viku.  Sérprjónaða verðlaunapeysan komin í hús og hún er algjört æði!

22. ágú. 2010

Reykjavíkurmaraþon fyrir allan peninginn

Menningarnótt er afskaplega lítið menningarleg hjá okkur fyrir utan náttúrulega hlaupamenninguna... Við erum hætt að hugsa um að troða einhverju öðru inn í dagskránna þegar við erum öll að hlaupa á sitthvorum tímanum á sitthvorum staðnum með tilheyrandi fólksflutningum og sturtuferðum.  Við hlökkum bara til að verða gömul, þá ætlum við að rölta um miðbæinn að kvöldi til, vera búin að leggja okkur um miðjan daginn og jú auðvitað hlaupa eitthvað líka...

En alla vega, við hjónin vöknuðum hálf sjö til að borða hefðbundin hlaupa morgunmat fyrir hálfmaraþonið, félagi okkar kom og sótti okkur klukkutíma síðar en þá var afi Þór komin til að passa krakkana.  Klukkutíma síðar kom annar vinnufélagi minn og pabbi vinkonu hans Gabríels, náði í strákinn fyrir okkur og kom krökkunum á sinn stað fyrir 10 km hlaupið.  

(Hér skal draga andann djúpt og lesa í einum rikk...)  Planið var svo að við myndum hlaupa eins og vindurinn, taka á móti Gabríel í markinu, hitta afa Þór og Lilju á Umferðamiðstöðinni, koma okkur heim í sturtu, fá okkur að borða, gera okkur klár fyrir Latabæjarhlaupið, keyra aftur niður á Umferðarmiðstöð, hlaupa með Lilju, horfa á barnadagskránna, koma okkur aftur heim, gera okkur fín og sæt, hitta hlaupafélagana á Caruso, borða góðan mat, labba um í miðbænum, koma börnunum heim og í ból og alls ekki missa meðvitund fyrr en við værum sjálf komin í ból.  Og svoleiðis var það!

Þórólfur varð 3. í hlaupinu á 1:19:01, ég var 5. kona á 1:29:52, við vorum í 3. sæti í sveitakeppninni, Gabríel hljóp 10 km á 56:06 og Lilja VANN Latabæjarhlaupið eða það segir hún alla vega... Svipmyndir frá deginum okkar sem eru fengnar að láni héðan og þaðan:
Gabríel og Karítas
Look-ið alveg pottþétt!
Svo er gott að nota þessa karla í að skýla sér :)
Þórólfur ekkert að flýta sér, all in good time...
Lilja vann sko!
Solla stirða, Íþróttaálfurinn og Glanni glæpur omg.
Komin í sparifötin, soldið fín.
Krakkarnir prúðir og stilltir
Strákarnir...
... og stelpurnar
Á röltinu með félögunum

19. ágú. 2010

Draugaverkir

Nú er ekki talað um annað en maraþon undirbúning í vinnunni hjá mér og já hjá venjulegu fólki skiptir ekki öllu máli hversu langt er hlaupið þegar maður er að undirbúa sig fyrir 'Maraþon'.  Ég er löngu hætt að tuða um maður geti eiginlega ekki talað um að hlaupa maraþon þegar maður tekur þátt í 10 km hlaupinu eða skemmtiskokkinu, það er bara til að skemma stemmninguna.

Nokkrir sem ég þekki eru að fara að hlaupa lengra en þeir hafa nokkurn tíma gert, jafnvel hálft eða heilt maraþon og eru með stórar áhyggjur af því að allt í einu er komin verkur í hné eða bak...  Ég róa þá viðkomandi og segi þeim frá fyrirbærinu sem kallað er 'Draugaverkir' og gera vart við sig þegar maður dregur úr æfingaálagi og koma eins og skrattinn úr sauðaleggnum!  Draugaverkir tilheyra síðustu dagana fyrir maraþon og hafa engin áhrif þegar maður er komin á ráslínu í hlaupinu sjálfu.  Verkirnir hverfa á jafn undraverðan hátt og þeir birtust, þannig er það bara.

Við vorum með síðbúið afmæliskaffi á sunnudaginn fyrir strákan á heimilinu.  Efst á óskalistanum hjá Gabríel voru Carhartt föt og hann fékk bæði flottan bol og peysu og var þvílíkt glaður með daginn.  Lilja fékk smá pakka líka en það var lítið málninga sett fyrir dömur.  Hún var þvíklíkt glöð að fá sitt eigið snyrtidót en hingað til hefur hún nokkrum sinnum læðst í dótið hjá mömmu sinni við litla vinsældir.  Einhver spurði: 'Ertu að mála þig svona fínt?'  'Nohojdsss... ég er að snyrta mig!'  




Eftir Ameríkuferðina þá hefur mín litla verið mjög hænd að mömmu sinni, næstum eins og ástfanginn unglingur: 'Nei, mamma á að gera þetta, ég við vera hjá mömmu, mamma, mamma, mammahhhh....'.  'Mamma, ég er alveg mömmusjúk!'.  Hún teiknaði svo þessa mynd af okkur mæðgum.



Ég sé um að klippa krakkana og nú vildi Lilja fá alveg stutt hár.  'Eins og þú mamma!'.  Það var ekki samþykkt :)

16. ágú. 2010

Undirbúningur í fullum gangi

Nú eru allir fjölskyldumeðlimir búinir að skrá sig í Reykjavíkurmaraþonið og stífar æfingar standa yfir. Gabríel, sem ætlar að hlaupa 10 km hefur komið með mér út að hlaupa annan hvorn dag, fyrst 3,5 km, svo 5,5 km o.s.frv. Lilju finnst reyndar gróflega á sér brotið að fá ekki að fara með okkur út að hlaupa og grenjar eins og stunginn grís. Hún er nú samt fljót að jafna sig og ég passa að taka nokkra stílspretti með henni líka. Svo er svaka magaæfingaprógramm í gangi hjá okkur, erum að safna í sixpack á línuna. Er örugglega frekar fyndið að vera fluga á vegg á okkar heimili á kvöldin, einn hangandi í upphífingartækinu, annar með lappirnar upp á kassa að gera magaæfingar, Lilja að teygja, fetta sig og herma eftir hinum.  Svo er yfirleitt einn í sófanum að reyna að horfa á eitthvað eða að skrá inn æfingar í tölvuna.
Íslandsmeistaramótið í götuhjólum fór fram núna á laugardaginn og það var stórskemmtilegt þrátt fyrir bæði rok og rigningu á köflum.  Hjóluðum saman fjögur í hóp nánast alla leiðina, tæpa 70 km en í síðustu brekkunni skildi á milli og það var blóðug barátta um titilinn á æsispennandi endaspretti milli okkar Ásu.  Ása hafði betur, var 4 sek. á undan í mark og átti svo sannarlega skilið titilinn í ár.  Í markinu tóku fulltrúar frá lyfjaeftirlitinu á móti okkur og voru nýjir Íslandsmeistarar teknir beint í lyfjapróf.  Okkur fannst þetta allt saman mjög spennadi og gerði þetta enn meira alvöru :) .  Úrslit og myndir af HFR síðunni.  Ég fann ekkert fyrir hendinni í keppninni, að öðru leyti en að ég hef ekkert getað hjólað síðustu 6 vikur... en um kvöldið fann ég fyrir smá doða svo það er eins gott að vera vel vakandi og ég þarf greinilega að passa mig.

Eva, Ása Guðný og María Ögn
Ég var eitthvað að gæla við að vera með í Íslandsmeistaramótinu í Timetrial á götuhjólum á fimmtudaginn en er búin að blása það af, það er of nálægt hlaupinu og ég myndi bæði þurfa að spara mig á hjólinu og þurfa að borga fyrir það í hlaupinu ef ég væri með.  Klúbburinn Skynsemin ræður, góðan daginn!
Posted by Picasa

13. ágú. 2010

Í upphafi skyldi endinn skoða!

Ég var að vinna í nokkur ár sem "Business Analyst" í hugbúnaðardeild og í því starfi lærði ég þá lexíu rækilega að í upphafi skyldi endinn skoða.  Starf mitt fólst í því að taka niður þarfir og óskir viðskiptavina um breytingar eða nýjungar í hugbúnaði.  Eftir að maður hefur safnað saman öllum óskum, þörfum og athugasemdum sem málið varðar, þá tekur við greining á m.a. afleiðingum þeirra breytinga sem verið er að óska eftir.  Ein pínulítil breyting einhvers staðar í einhverju kerfi, getur nefnilega sett fyrirtæki á hliðina ef allt fer á versta veg.  Titilinn á þessu bloggi voru einmitt gerð að einkunnar orðum okkar og við vorum dugleg að minna hvert annað á þetta.

Þessi fleygu orð hringla nú um í höfðinu á mér þegar ég hugsa um nýjustu pælingar mínar og samskipti við hagsmunaaðila þríþrautarmála á Íslandi.  Það er nefnilega þannig að hafi maður einu sinni verið á kafi í greiningum þá loðir það við mann, bara svona í lífinu almennt.  Þess vegna er ég yfirleitt mjög vel undirbúin og búin að skoða hlutina frá öllum hliðum (eins framarlega og mér er unnt :) áður en ég set eitthvað frá mér.   Af hverju er ég að spá í reglur og framkvæmd í þríþraut á Íslandi?  Það er ekki vegna þess að ég vilji skemma eða að mér sé illa við nokkurn sem að henni stendur, heldur vegna þess að mér er ekki sama.  Ég myndi t.d. ekki skipta mér af hestaíþróttum af því ég hef engan  áhuga á þeim.  Ég veit líka að með því að blaðra um þessi mál hérna þá verða ég seint valin vinsælasta stúlkan í þríþrautinni en það verður bara að hafa það. 

Nú hvað gerist þegar úrslitum er breytt á Íslandsmeistaramóti í Hálfum járnkarli eftir að keppni er lokið.  Ég er  ekki að gleyma því að þetta voru mannleg mistök hjá starfsmanni í talningu í sundinu, eitthvað sem alltaf getur gerst og er á engan hátt keppendunum að 'kenna' ef maður vill nota það orð.  

Jú, í fyrsta lagi þá liggja fyrir upplýsingar um raun tíma allra keppenda í þrautinni og röð þeirra eins og hún sannarlega var, þannig að það er ekkert erfitt að finna út hverjir áttu í hlut og hvernig tímum þeirra var breytt.  Þessar upplýsingar hef ég og í raun var fyrirspurn til mótsstjóra einungis af forvitni um hvernig yrði tekið á móti henni.  Svör voru í samræmi við væntingar.  Sundtímum þriggja keppenda var breytt eftir á, án skýringa og þannig voru þeir uppfærðir í afrekaskrá.  Tveir keppendur færast upp á listanum um tvö sæti en einn keppandi um eitt sæti.  Það gerir það að verkum að keppandi, sem gaf allt í botn til að ná og fara fram úr öðrum keppanda og kom sannarlega á undan honum í mark, þarf að bíta í það súra epli að sá sem hann sigraði, stendur honum nú framar í afrekaskránni.  Þrír keppendur eru sem sagt skráðir í afrekaskrá fyrir Hálfan járnkarl á tímum sem voru reiknaðir út eftir á, en ekki á þeim tímum sem þeir luku þrautinni á.  Til að gera málið flóknara þá sendi ég inn fyrirspurn í gegnum hlaup.com um hver sæi um uppfærslu á afrekaskránni, (til þess þá að geta sent inn athugasemd) og þá kom í ljós að það er einn þessara þriggja aðila...  Hehemm og hvað gerir maður þá?  Mér fannst alla vega ekki eiga við að senda ábendinguna þar sem það liggur ljóst fyrir að viðkomandi þekkti allar forsendur nú þegar :)

Nú er hægt að hugsa með sér að í keppnishlaupum þá er það alltaf röð keppenda í mark sem ræður úrslitum eru flögutímar stundum notaðir í afrekaskrár.  Ég hef ekkert á móti því, vegna þess að með flögutímanum er tryggt að viðkomandi hafi lokið tiltekinni vegalengd á tilteknum tíma, allt á tæru.  Ég hef meira að segja sjálf lent í þeirri stöðu að fá 3. verðlaun í keppnishlaupi (Miðnæturhlaupið í fyrra) en konan í 4. sæti var með nokkrum sekúndum betri flögutíma og fór þar af leiðandi ofar í afrekaskrár, með réttu.  Hins vegar hefði það aldrei komið til að kona sem er 4. í mark fengi 3. verðlaun, því maður veit aldrei hvaða áhrif það hefur á hlaupara að keppast um verðlaunasæti vs. að vera öruggur um það.  

Munurinn á að nota chip tíma og að nota útreiknaðan tíma eftir heimatilbúinni formúlu (t.d. meðalhraði á hverja 100m dreginn frá heildartíma) sem ekkert hefur með raunverulegan tíma að gera er í mínum huga álíka og munurinn á svörtu og hvítu.  Eitt er það sem gerðist í rauninni, hitt er það sem hugsanlega hefði getað gerst ef til vill...

Ég tók þátt í Kópavogsþríþrautinni fyrr í ár, hljóp út úr braut og miklu lengri leið en ég átti að gera.  Keppnisstjóri sendi frá sér flotta samantekt þar sem farið var yfir það sem betur mátti fara, m.a. merkingar  á  hlaupaleiðinni.  Þetta var bara ekkert mál, eitt af þessum shit happens.  Í rauninni hefði ég átt að vera DQ (disqualified) þar sem ég hljóp út úr braut og ekki inn á hana á sama stað.  Það var reyndar talað um að alla vega einn þriðja keppenda hefði átt að vera DQ af mismunandi ástæðum, miðað við að almennum reglum hefði verið fylgt.  Það var ekki gert og mér fannst það í fínu lagi þar sem þetta var lítil og skemmtileg þraut og allt var uppi á borðum.

Samkvæmt sömu hundalógikk og notuð er í Hálfa járnkarlinum, þá hefði ég getað gefið upp þá vegalengd sem ég sannarlega hljóp og þann hraða sem ég var á (var með Garmin svo ég veit hraða/vegalengd) og beðið mótsstjóra um að draga frá mér þær mínútur sem tilheyrðu umframhlaupi mínu og þannig verið á palli en ekki í 5. sæti.

Já sællll...  pæling :).  Svo er þetta allt saman kannski bara ósköp eðlilegt og sjálfsagt og ég bara svona ótrúlega öfugsnúin!

Annars er ég náttúrulega mest með hugann hjá þeim sem eru að fara að takast á við Ironman í Köben á sunnudaginn og hlakka til að sjá hvernig þau standa sig.  Búið að vera svo gaman að fylgjast með flottum undirbúningi, svo spennandi að sjá uppskeruna.  Ég á líka örugglega eftir að prófa þegar ég verð orðin stór.

 Gangi ykkur öllum sem allra best og megið þið rokka spikfeitt!

10. ágú. 2010

Dásamlega rútínan mín

Eins og það var erfitt að hugsa til þess að nú væri sumarfríið á enda, þá er það nú þannig að mér líður alveg ótrúlega vel í minni hversdagslegu rútínu.  Mér finnst gott að vakna snemma og hoppa spræk fram úr rúminu á morgnana.  Ég rétt gef mér tíma til að bursta tennurnar áður en ég hendist í hjólagallann og skelli á mig bakpokanum með fötum sem ég er búin að taka til kvöldið áður.    Svo vel ég mér skemmtilega og fallega leið í vinnuna og fæ fullan skammt af súrefni og endorfíni á leiðinni.  Eldsnögg í sturtu og útbý hafragraut í kaffistofunni.  Einn tvöfaldur kaffi latte úr bestu kaffivél bæjarins og það er sama hvað dagurinn ber í skauti, ég er tilbúin!

Ég þrífst best á því að hafa hreyfinguna og matarræðið í föstum skorðum og núna fyrstu dagana eftir frí líður mér eins og ég sé í náttúrulegu detoxi!  Síðustu dagarnir í fríinu eru nefnilega þannig að maður 'slædar...' aðeins út af beinu brautinni, einn ís hér og annar þar, aðeins meira á diskinn hér og desert á miðvikudegi...  Það er nú einu sinni sumarfrí og bráðum er það búið.  Það góða er að ég er algjörlega undirbúin undir þessi frávik og veit hvernig ég á að bregðast við og lendi þar af leiðandi ekki í stórum vandræðum.

Vinnufélagarnir gera grín af mér þegar ég tala um að losa mig við aukakílóIÐ eftir sumarsukkið en mér er dauðans alvara, það fær ekki að vera hjá mér í meira en eina, tvær vikur max.  Þegar maður tekur til hjá sér jafn óðum, þá er í fyrsta lagi aldrei mikið drasl hjá manni og svo er maður ekkert lengi að því!

Ég held meira að segja að 'dásama rútínuna' færslan sé orðin að rútínu...

Framundan eru skemmtilegir tímar.  Ég er komin í hörku hlaupaform aftur og það er gaman á æfingum.  Á laugardaginn ætla ég að taka þátt í Íslandsmeistaramótinu í götuhjólreiðum, 75 km í Hvalfirðinum og svo er það Reykjavíkurmaraþon helgina þar á eftir.  Við ætlum öll að taka þátt, við Þórólfur hlaupum hálft maraþon, Gabríel hleypur 10 km og Lilja tekur þátt í Latabæjarhlaupinu.  

Í ár ætla ég að hlaupa til styrktar Drekaslóð sem eru ný samtök sem vinna með þolendum ofbeldis og aðstandendum þeirra.  Það er alltaf erfiðast að koma sér af stað í nýjum verkefnum, hvort sem það er hlaup, matarræði eða önnur verkefni eins og þetta, þess vegna langar mig til að styðja við bakið á þeim að þessu sinni.  Ef þið hafið áhuga á að styrkja þetta málefni þá getið þið heitið á mig með því að smella á þessa slóð:  Hlaupastyrkur fyrir Drekaslóð

6. ágú. 2010

Umboðsmaður keppenda?

Áttum frábæran dag í gær sem innihélt m.a. hádegisverðarhlaðborð á VOX með góðum vinum. Var ekki alveg viss hvaða áhrif það myndi hafa á Vatnsmýrarhlaupið um kvöldið en í ljós kom að það var bara til góðs ef eitthvað var. Við hjónin skokkuðum niðrí bæ sem var fínasta upphitun og hlupum svo heim eftir keppnina.

Ég hef svo oft lent í vandræðum í styttri hlaupum, kann vel á 10 km... Yfirleitt þá fer ég of hratt af stað, er alveg að drepast þegar ennþá eru 2 km eftir, kvöl og pína. En í gær gekk allt upp. Hljóp yfirvegað af stað og var fljótlega 4. kona en sá vel í fyrstu 3. Eftir 1,5 km fór ég fram úr 3. konu og nálgaðist 2. örugglega og var komin í hælana á henni efti 2,5. Þegar rúmur km var eftir tók ég fram úr og hljóp síðasta km á 3:42 pace og endaði á PB 19:34, 2. kona í mark. Ég átti fyrir besta tímann í 5 km vorið 2008 þegar hann Biggi félagi minn pace-aði mig undir 20 í fyrsta sinn á Sumardaginn fyrsta, 19:42. Var alveg hoppandi glöð með þetta og nú er RM framundan og ég stefni á bætingu í 1/2 maraþoni þar. Ekki skemmdi fyrir að Þórólfur krækti í glæsileg úrdráttarverðlaun, fulla körfu af alls kona heilsugóðgæti og söfum!

Fékk til mín fróðlegt erindi um daginn, var beðin um mitt álit á ákveðinni uppákomu og ákvað að fylgja því aðeins eftir. Það varðaði Íslandsmeistaramótið í Hálfum Járnkarli og ég sendi fyrirspurn á mótsstjóra til að fá réttar upplýsingar frá fyrstu hendi. Set inn hér að neðan mínar pælingar og svör frá mótsstjóra, er nokkuð viss um að ég hafi gert allt rétt í þetta sinn :)

FYRIRSPURN:

Sæll Róbert,

Ég er svei mér þá orðin einhvers konar umboðsmaður keppenda ... :) Það kom til mín keppandi í Hálfa Járnkarlinum og spurði mig álits á tilteknu máli sem hann sagði hafa komið upp í keppninni.

Ég treysti mér ekki til að gefa mitt álit án þess að hafa allar staðreyndir á hreinu og ergo, sendi þess vegna fyrirspurn til þín.

1) Er það rétt að teljari í sund hlutanum hafi talið vitlaust og að einhverjir keppendur hafi synt 100 m of langt?
2) Er það rétt að eftir að keppni lauk hafi tímum þessa einstaklinga verið breytt út frá einhverri reiknireglu, þ.e. meðaltími á hverjum 100 m dregin frá lokatíma?
3) Hvaða keppendur áttu í hlut?
4) Var röð þessara keppenda breytt í úrslitum, þ.e. þeir færðir upp um sæti?
5) Var þetta tilkynnt einhvers staðar, þ.e. breytingar á úrslitum? (n.b. ef þeim var breytt :)
6) Ef ég gef mér að sá sem talaði við mig hafi verið að gefa mér réttar upplýsingar... Hefði þá mögulega komið upp sú staða ef teljari fremstu manna hefði mistalið að nýtt Íslandsmet væri reiknað út eftir á og að mögulega hefði þá sigurvegarinn (karl/kona skiptir ekki) ekki verið fyrstur í mark...?
7) Nú og ef svarið er nei við spurningu 6), gilda þá ekki sömu reglur um alla í keppendur í keppninni?

Hlakka til að heyra frá þér, mér finnst þetta mjög áhugavert mál.

Kv. Eva

SVAR:

Sæl Eva.

Það er rétt að sundtíma keppenda var breytt en það hafði engin áhrif á þau íslandsmet sem sett voru. Ef að þessi keppandi vill fá frekari svör þá er honum velkomið að hafa samband við mig beint.
Kv.
Róbert

SVAR VIÐ SVARI:

Sæll Róbert,

Takk fyrir þetta, var nú að vonast eftir svörum við spurningunum beint en allt í fína.
Viðkomandi er svo logandi hræddur um að kalla yfir sig reiði og óánægju yfir að vera eitthvað að spá í þetta að hann bað mig um, að undir engum kringumstæðum láta vita hver hann væri!

Að sjálfsögðu verð ég við því :).

Kv. Eva

SVAR VIÐ SVARI VIÐ SVARI:

Sæl Eva.

Þá verður bara svo að vera.

Kv
Róbert

3. ágú. 2010

Notalegar stundir

Helgin okkar var uppfull af notalegum stundum.  Sváfum eins og sveskjur fram eftir alla morgna.  Lilja alveg að rokka í útsofinu.  Náðum að horfa á nokkrar góðar bíómyndir, elda góðan mat og svo hlupum við  heilan helling, enda veitti ekkert af að sukkjafna.  Ég fór í fyrsta hjólatúrinn minn í margar vikur og fann ekkert fyrir hendinni og í dag prófaði ég að synda og það gekk líka eins og í sögu. 

Gabríel okkar fékk að fara með vini sínum í ferðalag í tvo daga.  Við söknuðum hans heilmikið og það var svo gott að fá hann aftur heim í dag.  Lilja vill helst af öllu fá að lúra hjá bróður sínum og hún var ekki lengi að setja sig í sparigírinn, blaka augnhárunum og spyrja eins fallega og hún gat... 'Elsku besti Gabríel minn, má ég sofa í þínu rúmi...?  Geeerðu það?'.

Á laugardaginn fórum við Þórólfur og Lilja á Sólheima í Grímsnesi að heimsækja góða vini okkar.  Það er eitthvað alveg sérstakt við þennan litla stað.  Það er eins og maður sé komin í annan heim sem er á allt öðrum hraða en restin af veröldinni.  Það færist yfir mann ró og friður og maður verður að hemja sig svo maður kaupi ekki listaverk eftir vistmenn fyrir allan peninginn.  

Á sunnudaginn röltum við niðrí Húsdýragarð til að hlusta á Super Mama Djombo.  Mamma kom með okkur og við nutum þess að dilla okkur við spriklandi gleðimúsík frá Afríku.  Það verður allt einhvern veginn skemmtilegt í svona góðu veðri.  

Gabríel og Lilja í SingStar:  Mamma mia, here we go again...


Við Lilja tjúttuðum við gleðitónana


Pabbi var ótrúlega þolinmóður að bíða í bátaröðinni...


...sem á endanum varð að stelpubátsferð, geðveikt gaman hjá minni! 

1. ágú. 2010

Ást og uppeldi

Mér þykir óendanlega vænt um börnin mín, ég þarf ekkert að taka það fram.  Samt sem áður, þá fer dágóður tími í það að skamma þau fyrir eitthvað.  Ég skamma þau og reyni að beina þeim í rétta átt, af því að mér þykir svo vænt um þau.  Þau efast ekki um að ég elski þau, jafnvel á meðan ég er að skammast...

Ég var eignilega aldrei skömmuð (sorrý mamma :) og komst upp með allan andsk...  Ekki var það verra, að ef einhver ætlaði sér að segja eitthvað þá gat ég alltaf notað það að ég átti fjóra eldri bræður, sem örugglega höfðu gert eitthvað verra en ég.  Ég hef aldrei efast um ást foreldra minna á mér.  Ég held samt að það hefði verið betra ef ég hefði verið skömmuð þegar við átti.  Það hefði sennilega sparað mér svona milljón mistök sem ég átti eftir að gera í framtíðinni.

Mér þykir óendanlega vænt um allt það góða og óeigingjarna starf sem frumkvöðlar í íþróttum á Íslandi hafa lagt af mörkum.  Ég dáist af dugnaði og eldmóði þeirra einstaklinga sem standa í femstu víglínu.  Ég er svo þakklát fyrir að fá að taka þátt í viðburðum sem verða að veruleika, einmitt vegna þessa fólks, frumkvöðlanna og sjálfboðaliðana sem leggja á sig ómælda vinnu til að gleðja aðra. 

Þegar ég velti því fyrir mér hver stendur algjörlega upp úr hvað þetta varðar, í heimi þríþrautarinnar, þá þarf ég ekki að hugsa mig lengi um.  Það er ritarinn.