Það eru teljandi á fingrum og tám (ja, ég keppi frekar oft :), þau keppnishlaup þar sem allt gengur upp. Þannig var Vesturgatan í ár fyrir mig. Vaknaði upp í blíðunni í bústaðnum okkar í Tungudal. Barnapían okkar fyrir vestan, hún Særún var mætt á mínútunni svo það var ekkert stress. Vorum mætt tímanlega á Þingeyri og svo hraut ég í rútunni á leiðinni í startið, mjög afslöppuð.... Við höfðum svona klukkutíma til að dingla okkur áður en hlaupið byrjaði, alveg gríðarlega fallegt þarna og maður hafði nógan tíma til að njóta og fara að pissa 20 sinnum og svoleiðis :)
Kom mér fyrir í startinu og ákvað að hlaupa þetta skynsamlega en jafnframt eins vel og ég gæti. Hljóp á eftir honum Oddi félaga mínum fyrstu km í fjörunni og sá í skottið á Hálfdáni en ég reiknaði með að geta haldið í við hann. Þvílík fegurð! Kílómetrarnir flugu með ógnarhraða og áður en ég vissi af vorum við komin að fyrstu drykkjarstöð. Ég var með tvö gel með mér en enga vasa... svo þau fengu að vera í húfunni hjá mér :) Svei mér þá ef ég geri það ekki bara í framtíðinni, gelið var heitt og fljótandi, ekkert mál að koma því niður.
Með bónda mínum á byrjunarreit
Leið alveg svakalega vel eftir sopann og fjúmm... næsta drykkjarstöð og hálfnuð með hlaupið! Ég kíkti á klukkuna og sá að ég var undir klukkutíma og var ánægð með það. Ég var forvitin að sjá hvernig þetta myndi þróast hjá mér eftir 16 km en ég hef ekki hlaupið yfir 20 km í marga mánuði. Þurfti engar áhyggjur að hafa, leið bara betur eftir því sem á leið ef eitthvað er. Þriðja drykkjarstöð og þá var bara smotterí eftir sem ég vissi að ég myndi ráða vel við. Leit aftur á klukkuna á toppnum á síðustu brekkunni þegar ég sá í markið og sá 1:58... Tók sprettinn og var að hlaupa á undir 3 mín pace, fyrsta kona í mark á 1:59:05.
Litla hafmeyjan... gott að slaka á eftir hlaupið
Verðlaunin voru ekki af verri endanum. Ég fékk flotta utanvegaskó og lopapeysu að eigin vali sem er prjónuð sérstaklega handa mér. Ég fékk líka verðlaun fyrir bestan árangur í samanlögðu, Óshlíð 10 km og Vesturgata 24 km, fallegt glerlistaverk til að hengja á vegg.
Björg, Eva og Hrefna
Eva og Siggi
Þórólfur stóð sig með prýði og varð 3. í hlaupinu á 1:40, flottur tími hjá honum og ekkert smá flott eftir þrjár bætingar á einni viku, í 5000m, 10 km og hálfu maraþoni.
Við fjölskyldan eigum ekki orð yfir hversu vel var að öllu staðið á Hlaupahátíðinni á Vestfjörðum. Skipuleggjendur stóðu sig með stakri prýði og það sem laga mátti á síðasta ári, var allt eins og það átti að vera í ár. Þrefalt 'Húrra' fyrir Riddurum Rósu og öðrum aðstandendum!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli