24. júl. 2010

Oops I did it again...

Komin tími á prumpufýlublogg, það barst nefnilega smá fnykur alla leið hingað í blíðuna á Akureyri.  Hérna komust við í netsamband í fyrsta skipti í viku og þá var að sjálfsögðu mitt fyrsta verk að skrá æfingarnar almennilega á hlaup.com.  Þar rak ég augun í umræður um nýtt brautarmet á Laugaveginum.  Kómískt að það er sami aðalleikari í hlaupahneyksi sumarsins 2010 og hlaupahneyksli sumarsins 2009...

Ég ætla ekki að tjá mig á hlaup.com, ég á minn eigin öfugsnúna stað hérna.   Og hvað finnst mér um þetta allt saman...

  • Ég er afskaplega glöð að hafa unnið öll mín afrek algjörleg án aðstoðar annarra, það er hluti af glory-inu fyrir mig.
  • Ég er ekki í nokkrum vafa um að það er auðveldara að hafa aðstoðarmann eða einhvern að hlaupa með sér þegar maður er orðin þreyttur og já í Emstrum er maður orðin þreyttur.
  • Ég er alveg viss um að ég hefði verið á betri tíma þegar ég vann Laugaveginn 2008 hefði ég haft einhvern með mér sem þekkti leiðina vel, ég tók tvo nokkur hundruð metra óþarfa útúrdúra.
  • Ég er alveg handviss um að ef einhver sem ekki væri starfsmaður í keppni myndi bjóða mér einhvers konar aðstoð þá myndi ég hafna henni umsvifalaust og ég væri ekkert feimin við að hvæsa af mér viðkomandi.
  • Ég myndi gera allt sem í mínu valdi stendur til að enginn gæti efast um mitt afrek, það er mín ábyrgð.
  • Ég tel að öll aðstoð sem keppendur þiggja af utanaðkomandi í keppni, þá er ég að tala um drykki, héra aðstoð í formi hlaupara eða hjólara, einhvern til að taka vindinn fyrir sig eða annað sem hjálpar einum keppanda umfram annan sé óásættanleg.
  • Ég var alveg viss um að Helen myndi vinna Laugaveginn í ár, nema eitthvað svakalegt kæmi uppá, aðrir keppendur í kvennaflokki hafa ekki sama hlaupahraða.
  • Ég er alveg viss um að Helen hefði unnið Laugaveginn án aðstoðar Ívars síðasta hluta leiðarinnar.
  • Ég er ekki viss um að Helen hefði hlaupið á þessum tíma, hefði hún ekki haft Ívar sem aðstoðarmann síðustu 15 km, hann gjörþekkir leiðina. 
  • Ég er alveg viss um að við munum aldrei komast að því hvernig hefði farið ef Helen hefði ekki hlaupið með Ívari!
  • Ég er afskaplega ánægð með þá breytingu frá því í fyrra, að sá sem vekur máls á þessu, sem mér finnst bæði nauðsynlegt og sjálfsagt, er ekki dreginn í svaðið, kallaður öllum illum nöfnum og fær vonadi að vera í friði í hlaupasamfélaginu, þrátt fyrir sínar skoðanir, ólíkt því sem gerðist í fyrra.   (Edit:  Tek þennan jákvæða punkt til baka, var að kíkja á hlaup.com aftur og jú nú er farið að hreyta í boðberann.  Af hverju er svona hrottalega hættulegt að tala um hlutina eins og þeir eru?  Af hverju þarf sá sem vekur máls á einhverju endilega að kæra til mótsnefndar? )
  • Ég er alls ekki þeirrar skoðunar að það þurfi að taka allt mögulegt og ómögulegt fram í keppnisreglum. Ef eitthvað er sérstaklega leyft, sem annars er ekki leyft í keppnishlaupi, þá finnst mér að taka eigi það fram en ekki öfugt, þ.e. að telja upp allt sem ekki má (eins og að bera keppanda síðasta spölin...).  
  • Réttlætið sigrar alltaf að lokum!
Smá viðbót vegna nýjustu athugasemda á hlaup.com og ó hvað ég var bjartsýn á að í þetta sinn væri hægt að skiptast á skoðunum á málefnalegan hátt án þess að vera með skítkast.

Varðandi athugasemd frá Gísla ritara vil ég benda á að það hefði alveg eins getað verið yfirskrift á þessu bloggi, eftir Ólympísku þríþrautina sem væri eitthvað á þessa leið: Þríþrautarhneyksli sumarsins 2010.    Keppandi í kvennaflokki hljóp ekki rétta leið og hljóp umtalsvert styttra en aðrir keppendur.  Mótsstjóra var tilkynnt um þetta strax og næsta kona á eftir kom í mark en hún varð vitni að styttingunni.  Mótshaldarar bættu við einhverjum málamynda mínútum við lokatíma keppandans sem færðu hann aftur um eitt sæti.  Keppandinn, sem ekki lauk þrautinni, tók síðan við verðlaunum þrátt fyrir að vita að hann hljóp ekki alla leið og tók þar með verðlaun af öðrum keppanda.  Það var ekki fyrr en ég tjáði annars vegar Gísla (sem starfaði við keppnina) og keppandanum, að ég myndi vilja ræða þessi mál opinberlega að a) það var bætt fleiri mínútum við lokatímann svo keppandinn færðist niður um annað sæti (sem mér fannst ekki í lagi) og svo b) keppandinn ákvað að biðja um að vera 'Disqualified' og sendi mér í kjölfarið línu um, að það að ég ætlaði að tala um atburðinn samsvaraði hótun í sinn garð.  Í samskiptum mínum við Gísla (vin minn vonandi fyrir og eftir þessi skrif) þá var þess aldrei óskað að ég kærði atburðinn, bara að ég myndi í öllum bænum halda kjafti (Edit: Hér þarf ég að leiðrétta mig, n.b. Gísli bað mig ekki að halda kjafti það er ekki rétt hjá mér, afsakaðu þetta Gísli.  Þetta var fært í stíl og ég sé að þetta getur misskilist.  Það rétta er að mín upplifun af samskiptunum var sú að allir hlutaðeigandi vildu helst að ég héldi kjafti  :)  og enginn hlutaðeigandi, eins og t.d. Gísli stakk upp á því að ég myndi kæra úrslitin.  Hér með leiðréttist þetta og ég biðst afsökunar á að hafa ekki sagt þetta nógur skýrt).  Ég hefði hvort eð er ekki gert það, enda ræð ég hvort ég kæri eitthvað eða ekki.  Ég ákvað á þeim tíma að vera ekkert að ræða þessi mál frekar, þar sem það virtist vera nóg að láta vita að þetta yrði rætt, til þess að fá réttláta niðurstöðu!  Nú finnst mér aftur á móti ástæða til að rifja þetta upp og geri það þess vegna hér.

Edit: Bæti hérna inn link á Varnarræðu ritarans

Enda þetta á stuðningskveðjum frá okkur hjónum, til boðberans.  Megi hann og hans líkar aldrei láta þagga niður í sér!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli