Ó hvað það er gott að vera ekki fullkomin, þvílíkt frelsi. Mér er sérstaklega minnistætt í fyrra, þegar allt fjaðrafokið var i gangi vegna Akureyrarmálsins. Þá kepptist fólk, margir fyrrum félagar og vinir, við að hringja í vinkonu mína og lýsa því fyrir henni hversu ómöguleg ég væri. Hún sagði hlægjandi við mig síðar: 'Og svo var fólk að reyna að sannfæra mig um hvað þú værir ófullkomin! Eins og ég viti það ekki manna best sjálf!'. Mér þykir óstjórnlega vænt um þessa vinkonu mína.
Ég fékk nokkur komment á síðustu færslur, alls ekki mörg, en eitt kommentið stóð algjörlega uppúr og fær þess vegna birtingu hér:
Ég var þátttakandi í sumarhlaupi Atlantsolíu og FH fyrr í sumar og þar gat ég ekki betur séð en að þú værir einskonar héri fyrir annan þátttakanda. Ég hefði vel þegið að hafa héra í þessu hlaupi þar sem ég var með ákveðið markmið í huga og héri hefði komið sér vel til að ná því örugglega. Veit ekki en þetta hlaup FH var vel skipulagt alvöru götuhlaup og datt mér ekki í hug að hafa héra með mér þar sem ég er svo prúð og fer eftir reglum ;-)
Gjörsamlega tekin með buxurnar á hælunum og allt út um allt... Þetta er nefnilega alveg hárrétt og ekki bara var ég sek um ólöglega héraþjónustu, heldur var ástæðan fyrir því að ég var ekki skráð í hlaupið, eigin hégómagirnd. Ég hafði nefnilega skráð mig í hlaupið nokkrum dögum fyrr, mætti svo á staðinn með bónda mínum, en eftir upphitun þá fann ég að ég var í engu formi til að hlaupa þetta hlaup á góðum tíma,. Ég var eitthvað þreytt og ómöguleg í fótunum, var að fara að keppa í þríþraut nokkrum dögum siðar og afskráði mig á síðustu stundu. Þegar ég var svo að vingsast í kringum startið sá ég vinkonu mína (sem eins og í Laugavegs málinu bað ekki um aðstoð) og ég hljóp með henni þessa 5 km. Við settum nú engin met, vorum ekki í verðlaunasæti og náðum reyndar ekki markmiðnum heldur, en það er önnur saga.
Ég hef nokkrum sinnum hérað vinkonur mínar löglega, þ.e. verið skráð í hlaupið en engin þeirra hefur beðið mig um að gera það tvisvar!!! Ég held að aumingja Nafnlaus viti ekki hvað hún er að biðja um, ég verð nefnilega svo svakalega kappsfull, já við skulum bara segja eins og er, algjörlega óþolandi í þessum aðstæðum. Ég ætla aldrei að gera þetta aftur, ég lofa því. Og já, þó svo ég hafi gerst brotleg þarna þá er ég ennþá þeirrar skoðunar að utanaðkomandi aðstoð sé óásættanleg.
Ég man líka eftir öðru atviki sem best er að játa hérna í leiðinni. Þegar Þórólfur hljóp maraþon í Reykjavík árið 2006 (ég var ólétt þá :) þá kom ég að honum í frekar slöppu ástandi út á Ægissíðu. Hann bar sig illa og langaði í kók. Ég hjólaði út að næstu bensínstöð og fékk lánað fyrir einni kók, hjólaði svo til baka og færði mínum manni. Við höfum rætt það atvik og vorum ekki ánægð með þetta eftir á, sérstaklega eftir að við fórum að standa okkur betur í hlaupunum og að keppa um verðlaunasæti. Ég ætla aldrei aftur að rétta keppanda drykki eða annað nema ég sé starfsmaður í viðkomandi keppni.
Ég man ekki eftir fleiri brotum á hlaupaferlinum en það er nú stundum þannig að maður gleymir því sem maður vill ekki muna.
Það er svo rosalega gott að skrifta svona að ég ætla að bæta við nokkrum játningum í viðbót. Þegar ég var að keyra í Ameríku, frá New York til Ohio, þá var ég tekin fyrir of hraðann akstur. Ég var reyndar í miðri umferð, ekki að taka fram úr eða neitt svoleiðis þegar tveir bílar voru pikkaðir út. Ég fékk háa sekt og þar sem ég vissi upp á mig sökina þá stóð ekki á mér að borga hana, það gerði ég fljótt og vel. Þrátt fyrir að hafa keyrt of hratt í þessu tilfelli, þá er enginn vafi í mínum huga að það á að fylgja eftir reglum um hámarkshraða og það er sanngjarnt að refsa fyrir brot á þeim. Ég ætla líka aldrei að keyra of hratt aftur.
Og að lokum, þegar ég heyrði hver var aðstoðarmaðurinn á Laugaveginum í ár, þá braust út illkvittnislegur hlátur, alveg án þess að ég réði við nokkuð. Síðan velti ég mér pínulítið upp úr þessu öllu saman en alls ekki lengi. Það er nefnilega þannig að ég á ótal góðar minningar og miklu fleiri góðar en slæmar um viðkomandi og auðvitað óska ég honum og hans, alls hins besta, eins og flestum mannverum.
Læt þetta duga í bili, muwahahahahaha....
Ég get sko alveg sagt hryllingssögur af þér í hérahlutverkinu, svo þessi Nafnlausa fari nú ekki að láta sig dreyma um ykkur saman í svoleiðis hlutverkum. Eins og til dæmis þarna í Jónsmessuhlaupinu þegar ég hafði gert mér vonir um að hlaupa 5km undir 30 mínútum og þú LÉST mig hlaupa á 27 og eitthvað. Eða þegar mig langaði að hlaupa 10 km undir 60 mín í RM 2006 (jájá - því hinu sama hlaupi og þú svindlaðir svona svakalega fyrir manninn þinn - ólett og allt) og þú þrælaðir mér í 58 og eitthvað. Vonda, vonda kona.
SvaraEyðaGamli nafnlausi njóli, takk fyrir frábæra samverustund á Sólheimum um helgina og megi þær verða ótal margar í framtíðinni. Botnlaus ást og umhyggja frá okkur öllum, til ykkar allra :)
SvaraEyðaSömuleiðis njólarnir ykkar, takk fyrir komuna - ég er samt eiginlega meira svona hundasúra, sko. Minni en þið, skilurðu ;-)
SvaraEyða