8. jún. 2010

Ólympísk þríþraut, sagan öll :)

Nú er komin hefð á að Oddur vinnufélagi minn og vinur, sæki okkur Margréti og við erum öll samferða í þríþrautir og hjólakeppnir.  Það er náttúrulega algjör lúxus fyrir okkur stelpurnar og í gær var ég tilbúin á slaginu 7:15, þegar hann renndi í hlað.  Við vorum komin upp í Ásvallalaug tímanlega og búin að koma dótinu okkar fyrir áður en tæknifundur hófts kl. 7:50.  Ég var með treyju til að fara í eftir sundið og ermar, en var í vafa um að það væri nógu hlýtt á hjólinu og setti þess vegna jakka líka á skiptisvæðið.  Hjálmur, sólgleraugu og númerabelti setti ég ofan á letingjann á hjólinu, allt í réttri röð svo ég þyrfti ekkert að hugsa þegar kæmi að skiptingu.  Eftir tæknifundinn hituðum við aðeins upp með því að hlaupa smá hring, nú gerir maður allt eins og Karen segir að maður eigi að gera :)

Skotti fullkomlega uppsettur með hjálm á sínum stað.  Það er hægt að smella á myndir til að stækka þær.

Sund 1500 m ~ 36:05

Ég gat synt svona hálfa ferð fram og til baka, eftir að hafa verið merkt á bakkanum áður en ræst var til sunds.  Rétt í því að niðurtalning hófst þá var ég eitthvað að laga sundhettuna mína og krækti puttanum í eyrnalokkinn minn sem opnaðist.  Ég byrjaði sem sagt þrautina á að keppast við að ná að loka honum aftur áður en niðurtalningu var lokið, 6, 5, 4,... hjúkk, 2, 1 af stað.  Ég synti af stað ákveðið en að mér fannst ekkert of hratt.  Þrátt fyrir það þá lenti ég strax í vandræðum, átti erfitt með öndun og svo varð mér alveg svakalega óglatt, en ég hef ekki lent í því áður.  Eftir 200 m var ég alvarlega að íhuga hvor ég myndi neyðast til að skipta yfir í bringusund, en ef maður gerir það þá er ekki aftur snúið.  Hægði verulega á mér og einbeitti mér að því að ná stjórninni aftur og eftir 500 m var þetta orðið þolanlegt og ég vissi að ég gæti klárað.  Ég hafði reiknað með að vera u.þ.b. 33-34 mínútur að synda svo ég var ekkert sérstaklega ánægð með tímann en ég var aftur á móti mjög ánægð með að hafa náð stjórn aftur í sundinu, nú veit ég að ég get það ef ég lendi aftur í þessu og mun þá síður gefast upp og fara í bringusundið.

Ég er fín á bakkanum :)

Hjól 40 km með skiptímum fyrir og eftir ~ 1:19:27

Var svo fegin að geta krafla mig upp úr lauginni og hljóp eins og vindurinn út að hjólinu mínu.  Panikk... enginn hjálmur og sólgleraugu og dótið mitt allt út um allt.  Ef maður er ekki með hjálm þá er þetta búið.  Reyndi að halda haus og klæddi mig í hjólaskóna og treyjuna á meðan ég leitaði í kringum mig að hjálminum mínum.  Fann hjálminn nokkru frá í grasinu en ekki sólgleraugun.  Milljón hugsanir þutu í gegnum kollinn, á ég að eyða tíma í að leita að gleraugunum eða að fara af stað án þeirra, sem mér hugnaðist alls ekki.  Á meðan ég var að gera það upp við mig ákvað ég að fara líka í jakkann, næst myndi ég sleppa því.  Rek svo augun í gleraugun mín í dóti við nokkru frá mínu dóti, þekkti þau strax á litlum límmiða sem ég hafði sett á spöngina til að greina þau frá Þórólfs gleraugum.  Nú var allt gott í heiminum og ég gat tætt af stað.

Hvar er dótið mitt???  Leita, leita, klæða meira, leita, leita...
  Á næstsíðustu mynd rek ég loksins augun í sólgleraugun mín í fatahrúgunni hjá næsta manni.

Eftir Timetrial keppnina og Þingvelli þá var ég búin að sjá að ég þarf ekki að spara mig á hjólinu.  Gaf bara allt í botn og hafði engar áhyggjur, mér hefur enn ekki tekist að keyra mig út á hjóli.  Fór fljótlega að pikka upp mér betri sundmenn og frábært að hafa brautina svona í lykkjum svo maður gat alltaf séð hvernig staðan var.  Lenti reyndar í smá vandræðum með gírana seinni 20 km en það var skipt um gíravír á hjólinu mínu rétt fyrir helgi og greinilega eitthvað teigst á honum við átökin.  Hoppaði upp og niður um fleiri gíra í einu og þurfti dekra Skotta í réttan gír hverju sinni með því að ýta aðeins og strjúka fram og til baka.  Ekkert sem hafði úrslitaáhrif, meira svona eins og sandur í skónum, pínu pirrandi en eyðilagði alls ekki ánægjuna af að hjóla, það var bara gaman.  Var 5. kona upp úr lauginni en náði að vinna mig upp í 3. sæti á hjólinu.

Hér líður mér vel!
  
Hlaup 10 km ~ 44:42

Þegar ég hjóla heim úr vinnunni á daginn, á harðakani og oftast á síðustu stundu, þá rétt hef ég tíma til að skipta yfir í hlaupaskó til að hlaupa niðrí leikskóla til að sækja Lilju.  Ég er ekki frá því að það hafi hjálpað mér í hjól/hlaup skiptingunni.  Alla vega þá hefur aldrei verið eins auðvelt að hlaupa af stað eftir hjólið.  Leið mjög vel allan tímann og rúllaði þetta jafnt.  Vann mig upp í 2. sætið eftir 1-2 km og á leiðinni út eftir sá ég að það var ekki möguleiki að ná fyrstu konu, hún hafði of mikið forskot frá því í sundinu (synti 10 mín hraðar en ég).  Þá var bara að njóta þess að klára þessa þraut eins vel og hægt var.  Kom hoppandi kát í mark á tímanum 2:40:16, önnur kona í mark og gull í aldursflokki.

Margrét og Oddur stóðu sig líka eins og hetjur og ekki að sjá að þar séu nýliðar á ferð.  Oddur var ekki nema 2 mínútum á eftir mér í mark og Margrét fékk silfur í okkar aldursflokki.  Fyrir þessa þraut þá var ég eiginlega alveg búin að blása af að vera með í hálfa járnkarlinum í júlí, bara svo mikið annað skemmtilegt í gangi, en nú verð ég að viðurkenna að hann er alla vega kominn bak við eyrað...

Myndirnar eru allar teknar af Jónannesi Rúnari Jóhannessyni og birtar á síðu Þríþrautarsambans Íslands ásamt úrslitum.

3 ummæli:

  1. vá.. ég brenni bara hitaeiningum á að lesa þetta hehehehe.. svaka stuð!

    hetja!

    SvaraEyða
  2. Alveg bannað að taka ekki þátt í hálfum járnkarli, verð að hafa einhvern til að hvetja ;)
    kv. Snjólaug

    SvaraEyða
  3. Æðislegt, gaman að lesa og til hamingju með árangurinn. kv, Karen

    SvaraEyða