19. maí 2010

Þríþrautar uppgjör

Félagi minn sótti mig snemma á sunnudagsmorgun í blíðskaparveðri og við lögðum í hann í Kópavoginn.  Ég veit ekki hvort ég var meira spennt fyrir mína hönd eða vina minna sem voru að fara að taka þátt í sinni fyrstu þraut...  Ég var vel stemmd, fann ekkert fyrir Neshlaupinu sem ég hljóp deginum áður og hlakkaði til að takast á við verkefni dagsins. 

Um leið og við komum upp í Kópavogslaug skokkaði ég með hjólið á skiptisvæðið og kom því fyrir þar, ásamt hjálmi og sólgleraugum.  Ég var búin að skipta yfir í venjulega pedala á hjólinu af því ég ætlaði að vera í hlaupaskónum, sleppa við skiptingar.  Á hjólaskiptisvæðinu fékk ég góða hjálp frá henni Bibbu minni sem skýrði út fyrir mér hjólaleiðina, brýndi fyrir mér að fara varlega og útskýrði hvernig skiptingarnar ættu að fara fram.  Eins vísaði hún mér hvert ég ætti að byrja að hlaupa, þ.e. upp grasbalann.  Ég hljóp svo upp í laug til að koma dótinu mínu fyrir en þegar ég var búin að því þá fór ég aftur niður á skiptisvæði til að tékka á hvort allt væri í orden.  Þá var einn starfsmaður á skiptisvæðinu og ég ákvað að nýta tímann og spyrja hann betur út í hlaupaleiðina.  Þvi miður vissi hann ekki annað en að það átti að hlaupa upp grasbalann.  Hann hafði ekki fengið neinar nánari upplýsingar á þeirri stundu (rúmlega 9) og gerði ráð fyrir að þetta yrði vel merkt.  Við það hljóp ég aftur upp í laug og gerði mig klára fyrir sundið.

Sund með skiptitíma á bakka - 9:03
Mér fannst mjög gott að vera ekki í hraðasta sundhópnum, miklu afslappaðri og ekki hrædd um að sprengja mig.  Ég reiknaði með að vera u.þ.b. 8 mínútur í sundinu og hef sennilega verið rétt um 8:30 sem er bara í fínu lagi, stökk upp á bakkann og klæddi mig í sokka, hlaupaskó og jakka áður en ég hljóp í gegnum tímatökuna.  Ég var 9. kona í gegnum tímatöku.

Skiptitími og hljól - 49 sek./ 23:15
Hljóp eins og vindurinn niður að hjóli og var ekki í neinum vandræðum með að setja á mig hjálm og sólgleraugu.  Svo gaman að blasta af stað niður brekkuna, sjá Bibbu á horninu og ná svo næstu mönnum.  Ég er, svona eftir á, ekkert sérstaklega ánægð með hjólatímann minn.  Var sennilega að spara mig fullmikið og ég sé að í svona stuttri þraut þá á maður bara að láta vaða alla leið, ekkert dekur!  Ég var 5. kona inn á hjólasvæði, var enga stund að hoppa af hjólinu og koma því fyrir á sínum stað, henda hjálminum af mér og hlaupa af stað upp grasbalann en þá var ég komin í 4. sætið.

Skiptitími og hlaup - 14 sek./12:34
Ég vissi að ég var með sterkustu hlaupurunum í hópnum og hlakkaði til að pikka upp sterku sundmennina.  Ég var hérna orðin örugg um að komast á pall og var harðákveðin í að gefa allt í hlaupið og freista þess að ná enn ofar.  Það voru 3 eða 4 hlauparar í augsýn á þessum tímapunkti og ég einbeitti mér að því að ná í skottið á þeim.  Upp grasbalann og svo áfram út götuna, beinustu leið...  Eftir 3-400 m sá ég að eitthvað var verulega bogið við þetta allt saman.  Fremsti maður stoppaði og klóraði sér í höfðinu, enginn starfsmaður svo langt sem augað eygði og að mér læddist hræðilegur grunur...  Allt í einu tekur fyrsti á rás inn á milli húsanna og hinir á eftir.  Panikk!  Ég á eftir og á þessari stundu geri ég mér grein fyrir mistökunum.  Andsk...   Hinu megin við húsin komum við inn á hjólaleiðina lengst fyrir neðan hringtorg og þá var ekkert annað að gera en að bíta á jaxlinn og pjakka upp brekkuna og koma sér inn á hlaupaleiðina.  Kom inn í hlaupabrautina á eftir 7. konu og náði henni eftir hálfan km eða svo.  Náði líka 6. og 5. konu á leiðinni og var 5. kona í mark á tímanum 45:55

Eftir þraut
Ég var alveg hrikalega frústreruð og gat engan veginn slakað á og spjallað, þannig að ég greip hjólið mitt aftur og reyndi að hjóla úr mér mestu gremjuna.  Gekk ekki betur en svo að þegar ég kom aftur að lauginni þá hjólaði beint á gangstéttakant og sprengdi hjá mér!  Gat nú ekki annað en brosað út í annað og hugsað til guttans míns, en það er alveg týpískt að ef hann fer í fýlu þá labbar hann á horn eða rekur sig í eitthvað...  Í heita pottinum var ég farin að geta óskað öðrum til hamingju, en það tók alveg daginn að sætta sig við vonbrigðin.  Eftir góðan nætursvefn þá gat ég með sanni sagt að þetta var ekki að trufla mig lengur og ég var bara spennt að taka þátt í næstu þraut. 

Það var samt eitt sem ég var ekki alveg sátt við, ja alveg þangað til í dag.  Það var að þrátt fyrir að fjöldinn allur af þátttakendum hafi lent í vandræðum á leiðinni, miklu fleiri en þeir sem hlupu aukalykkjuna því sumir voru svo heppnir að vera kallaðir inn á réttu leiðina og sluppu þannig, var að sumir sem komu að vinnu við þrautina vörpuðu ábyrgðinni algjörlega á keppendur og urðu bara fúlir yfir gagnrýni á brautarvörslu.  Ábyrgð keppenda er að sjálfsögðu stór, þeir eiga og gera það sem þeir geta til að tryggja að þeir þekki leiðina, það eru jú þeir sem borga mistökin dýru verði.  En mér finnst ábyrgð skipuleggjenda líka stór.  Ég heyrði starfsmann hreyta í keppanda að hann ætti að skammast sín fyrir að vera ekki með númer á treyjunni sinni en það voru bara alls ekki allir sem fengu númer.  Þegar ég kom til skráningar þá voru öll númerin búin...??? og okkur sagt að það væri nóg að vera með númer tússuð á handleggi og kálfa.  Á átta ára keppnisferli mínum (það kæmi mér svei mér þá ekki á óvart ef ég ætti met í að taka þátt í öllum mögulegum og ómögulegum, hlaupa-, hjóla-, tvíþrauta- og þríþrautarkeppnum) þá hef ég aldrei áður villst af leið. 

Þess vegna var sérstaklega ánægjulegt að fá góðan póst frá skipuleggjendum í dag, með samantekt á því sem betur mætti fara eftir ábendingar frá keppendum.  Þar gangast skipuleggjendur við sinni ábyrgð og biðja keppendur velvirðingar.  Fyrir mína parta þá var það allt og sumt sem vantaði og ég er fullkomlega sátt!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli