Í einu orði sagt 'Snilld'. Í fleiri orðum, tær snilld og þessi keppni var ein sú skemmtilegasta sem ég hef tekið þátt í, alla vega skemmtilegasta hjólakeppnin. Í fyrsta lagi fengum við topp veður og svo er bara svo fallegt á Þingvöllum að maður getur ekki annað en notið þess að vera á staðnum. Við Oddur vorum samferða austur og vorum nógu tímanlega til að keyra leiðina áður en við hituðum upp.
Í vikunni hafði ég áhyggjur af því að vera jafnvel eina konan sem yrði með (og var þá búin að afskrifa það að mæta), vegna þess að um helgina voru líka hjólaæfingabúðir og ég vissi að flestar hjólakonurnar væru þar. Margrét og Sigrún voru líka vant við látnar og gátu ekki verið með í þetta sinn. Var þess vegna ánægð að heyra að það væri önnur kona búin að skrá sig og það hörku keppniskona sem ég hef ekki keppt við áður. Það var svo óvænt ánægja að sjá hana Sibbu vinkonu mína mætta á svæðið.
Við fórum rólega af stað, allur hópurinn en eftir nokkra km dró í sundur með fremsta hóp og við Oddur og Ása héldum hópinn. Við unnum saman og skiptumst á að brjóta vindinn og settum okkur það markmið að ná tveimur hjólurum sem við sáum glitta í fyrir framan okkur. Eftir smá tíma vorum við orðin eins og smurð vél og hægt og örugglega náðum við strákunum. Síðustu tvo hringina (þetta voru þrír hringir alls) hjóluðum við öll fimm saman og eins og áður þá skiptumst við á að brjóta vindinn og ná þannig að halda góðum hraða. Maður þarf að halda einbeitingu allan tímann þegar maður er að drafta, maður er með hjartað í buxunum um að maður rekist í dekkið hjá þeim sem er fyrir framan mann og eins þegar maður er að gefa í þá er eins gott að halda fókus. Var næstum komin út af einu sinni á beinum kafla þegar ég var að leiða hópinn þegar ég gleymdi mér eitt augnablik.
Endaspretturinn var rosalegur. Þegar nokkur hundruð metrar voru eftir tók Ása af skarið og þá hjólar maður eins og maður eigi lífið að leysa. Ása var sterkust á endasprettinum og náði að halda forystunni, ég var einni sek. á eftir og Oddur rétt á eftir mér, fékk sama tíma.
Við náðum að halda tæplega 32 km/klst hraða í þessari braut en hún er mjög hæðótt og ég er svakalega ánægð með það. Við lærðum líka heilmikið um hvernig best er að vinna saman sem hópur í svona keppni, skiptast á að brjóta vinidinn, hvernig maður gefur merki o.s.frv. Frábært að fá að hjóla með sér betri hjólurum en þannig lærir maður einmitt mest. Nú er bara að leggja áherslu á að æfa sig í sprettunum!
Hérna er likur á úrslitin og hérna eru skemmtilegar myndir frá keppninni. Þessar myndir hér fyrir neðan eru teknar af HFR síðunni og myndirnar tóku Evar Örn, Albert og Hákon Hrafn (held ég :).
Tilbúin í slaginn
Ása, Eva og Oddur.
Eva, Ása og Sibba
Frábært! Gaman gaman :)
SvaraEyða