Nú er lífið að komast í samt lag hjá gömlu og ég er eins og belja að vori, hoppandi glöð að geta hlaupið og hjólað eins og mig lystir. Nóg að gera núna, 'Hjólað í vinnuna' er byrjað og þá hrekk ég almennilega í hjólagírinn. Er búin að hjóla 30 - 50 km á dag og dásama veðrið sem leikur við mig.
Icelandair hlaupið var á fimmtudaginn. Þetta hlaup hefur reynst mér svakalega erfitt oftar en einu sinni. Tvö ár í röð þá ætlaði ég aldeilis að massa þetta, hljóp af stað eins og brjáluð bína, sprakk með háum hvelli eftir 5 km og skreið síðustu tvo, á meðan hver hlauparinn á fætur öðrum tók fram úr mér. Bæði árin endaði ég á nákvæmlega sama tíma upp á sek. 30:52, langt frá því sem ég ætlaði mér.
Í þetta sinn gekk allt eins og í sögu og betur ef eitthvað er. Ég lagði upp með að hlaupa á 4:10 - 4:15 og sjá hversu lengi ég myndi endast. Ekki vika síðan ég hljóp í Hérahlaupinu og þá var ég nær 4:30 svo væntingarnar voru algjörlega í hófi. Fann mig strax vel og gat hlaupið mjög afslappað á inna við 4:10 svo þá var bara að rúlla þetta þægilega. Náði í skottið á tveim skvísum eftir 3 km, hljóp með þeim næstu tvo og svo alveg öfugt við hin hlaupin, þá gat ég bara gefið í eftir 5 km. Mjög gaman að vera sú sem tekur fram úr hverjum á fætur öðrum en ekki öfugt. Var alsæl með tímann minn, 28:55 sem er 4:04 pace og í bónus fékk ég gull í aldursflokki en annars var ég fjórða kona í mark. Fríða Rún sigraði, Sibba önnur og Hrönn þriðja.
Í dag var svo Víðavangshlaup Íslands haldið í Laugardalnum, konurnar hlupu sex hringi eða 6,9 km. ÍR tefldi fram sterkri kvennasveit sem m.a. innihélt okkur fjórar sem vorum í fyrstu sætunum í Icelandair hlaupinu. Fríða Rún er lang sterkust af okkur og röðin var eins og á fimmtudaginn, en í dag náði ég að hlaupa með Sibbu og Hrönn alla leið, var bara 4 sek á eftir. Sveitin okkar fékk flottan bikar og ég fæ að passa hann næstu 3 mánuði. Lilja var ekki lítið ánægð með mömmu sína þegar ég kom heim aftur og fékk að setja nokkrar súkkulaðirúsínur í bikarinn, af því það var nammidagur!
Framundan er Criterium götuhjólakeppni á miðvikudaginn, Leiknishlaupið á fimmtudaginn, Neshlaupið á laugardaginn og Þríþraut í Kópavogi á sunnudaginn. Já, fyrir utan stórafmælisveislu hjá vinkonu minni á laugardagskvöld og svo á gamla afmæli í næstu viku. Það væri synd að segja að ég léti mér leiðast í þessu lífi mínu!
Lilja með bikarinn fyrir sigur í sveitakeppninni
Til lukku með fallegan bikar. Flottasta sveitin þarna á ferð.
SvaraEyðaGreinilega brjálað að gera í keppnum næstu daga, sem er bara gaman eins og þú segir.
Takk vinkona, við söknuðum þín!
SvaraEyða