Rétt hjá honum Oddi, engin ástæða til að vera öfugsnúin þegar það er svona gaman að lifa. Í gærkvöldi var haldin önnur götuhjólakeppni sumarsins á Völlum í Hafnarfirði. Þetta var svokölluð Criterium keppni en þá starta allir saman í hóp og svo er hjólaði í 2 km hringi, karlar hjóla 15 en konur 10. Ef maður er hringaður (gildir ekki milli flokka) þá klárar maður hringinn sem maður er á og hættir. Það var töluverður vindur og á hluta leiðarinnar og svo var þessi fína brekka á öðrum hluta. Hörku skemmtileg keppni, ég tók forystuna eftir fjóra hringi og hélt henni til loka. Hjólaði 20 km á 41:42 sem er rúmlega 28 km/klst. meðalhraði, fínt miðað við aðstæður. Það skemmtilegasta var þó að hún Margrét, vinkona mín úr vinnunni, sem var að keppa í fyrsta sinn á racer (sem hún keypti daginn áður) náði öðru sætinu og var rétt á eftir mér!!! Spennandi hjólasumar framundan hjá okkur og nú bíðum við bara eftir að Sigrún vinkona fái líka hjól. Hér eru úrslit og fleiri myndir!
Margrét, Eva og Steffi.
Í dag var það svo Breiðholtshlaup Leiknis. Ég hef í gegnum tíðina notað keppnir til að koma mér í form, maður tekur alltaf aðeins meira á í keppnum en á venjulegum tempó æfingum. 'Brautin er 150 kílómetrum of löng': sagði konan í skráningunni. 'Meinarðu 150 metrum?'. Skipti mig ekki máli þar sem ég var ekki að stefna á bætingu og bara með til gamans. Brautin liggur niður Elliðaárdalinn og þar er hlaupin neðri hluti Powerade leiðarinnar. Það var mjög mikill mótvindur niður dalinn og ég man ekki eftir að hafa áður þurft að hafa svona mikið fyrir því að hlaupa NIÐUR brekkur... Líka skrýtið að koma að markinu í Powerade og eiga þá 2 km eftir, allt upp brekku! En alla vega, þetta var bara þræl skemmtilegt og ég var fyrsta kona í mark og fékk að launum flottan blómvönd og bikar. Þórólfur og Lilja tóku þátt í skemmtiskokkinu og hlupu 2 km. Þau tóku svo á móti mér í markinu, litla skottið stefnir í að verða hin besta klappstýra. 'Áfram mamma!!!' Algjört krútt.
Nú er ég búin að taka þátt í 6 keppnum á síðustu 2 vikum og ég finn að ég verð sterkari með hverri áskorun. Framundan er heilmikið fjör, Neshlaupið á laugardaginn, Kópavogs þríþraut á sunnudaginn og Fjölnishlaupið, sem er hluti af Powerade mótaröðinni á fimmtudaginn. Ég reikna með að leggja mesta áherslu á góðan tíma í Fjölnishlaupinu.
Til hamingju með daginn, elsku vinkona!
SvaraEyða