31. maí 2010

Þingvallakeppni í götuhjólreiðum

Í einu orði sagt 'Snilld'.  Í fleiri orðum, tær snilld og þessi keppni var ein sú skemmtilegasta sem ég hef tekið þátt í, alla vega skemmtilegasta hjólakeppnin.  Í fyrsta lagi fengum við topp veður og svo er bara svo fallegt á Þingvöllum að maður getur ekki annað en notið þess að vera á staðnum.  Við Oddur vorum samferða austur og vorum nógu tímanlega til að keyra leiðina áður en við hituðum upp.

Í vikunni hafði ég áhyggjur af því að vera jafnvel eina konan  sem yrði með (og var þá búin að afskrifa það að mæta), vegna þess að um helgina voru líka hjólaæfingabúðir og ég vissi að flestar hjólakonurnar væru þar.  Margrét og Sigrún voru líka vant við látnar og gátu ekki verið með í þetta sinn.  Var þess vegna ánægð að heyra að það væri önnur kona búin að skrá sig og það hörku keppniskona sem ég hef ekki keppt við áður.  Það var svo óvænt ánægja að sjá hana Sibbu vinkonu mína mætta á svæðið. 

Við fórum rólega af stað, allur hópurinn en eftir nokkra km dró í sundur með fremsta hóp og við Oddur og Ása héldum hópinn.  Við unnum saman og skiptumst á að brjóta vindinn og settum okkur það markmið að ná tveimur hjólurum sem við sáum glitta í fyrir framan okkur.  Eftir smá tíma vorum við orðin eins og smurð vél og hægt og örugglega náðum við strákunum.  Síðustu tvo hringina (þetta voru þrír hringir alls) hjóluðum við öll fimm saman og eins og áður þá skiptumst við á að brjóta vindinn og ná þannig að halda góðum hraða.  Maður þarf að halda einbeitingu allan tímann þegar maður er að drafta, maður er með hjartað í buxunum um að maður rekist í dekkið hjá þeim sem er fyrir framan mann og eins þegar maður er að gefa í þá er eins gott að halda fókus.  Var næstum komin út af einu sinni á beinum kafla þegar ég var að leiða hópinn þegar ég gleymdi mér eitt augnablik.  

Endaspretturinn var rosalegur.  Þegar nokkur hundruð metrar voru eftir tók Ása af skarið og þá hjólar maður eins og maður eigi lífið að leysa.  Ása var sterkust á endasprettinum og náði að halda forystunni, ég var einni sek. á eftir og Oddur rétt á eftir mér, fékk sama tíma.

Við náðum að halda tæplega 32 km/klst hraða í þessari braut en hún er mjög hæðótt og ég er svakalega ánægð með það.  Við lærðum líka heilmikið um hvernig best er að vinna saman sem hópur í svona keppni, skiptast á að brjóta vinidinn, hvernig maður gefur merki o.s.frv.  Frábært að fá að hjóla með sér betri hjólurum en þannig lærir maður einmitt mest.  Nú er bara að leggja áherslu á að æfa sig í sprettunum!

Hérna er likur á úrslitin og hérna eru skemmtilegar myndir frá keppninni.  Þessar myndir hér fyrir neðan eru teknar af HFR síðunni og myndirnar tóku Evar Örn, Albert og Hákon Hrafn (held ég :).


Tilbúin í slaginn
Ása, Eva og Oddur.

Eva, Ása og Sibba


26. maí 2010

104,3

Nei ekki kg, heldur km.

Við vorum þrjú í liðinu okkar í 'Hjólað í vinnuna' sem tókum okkur saman og ákváðum að hjóla yfir 100 km á síðasta degi átaksins.  Það var ekki af illri nauðsyn, við vorum fyrir með lang hæsta km fjöldann í bankanum, heldur svona stemmnings dæmi.  Tvö okkar gerðu þetta í fyrra líka, en þá voru aðstæður allt aðrar.  Í fyrsta lagi var hávaða rok megnið af dögunum sem átakið stóð yfir (man að ég hugsaði oft með mér hvern fjár... ég væri að spá, verðlaunin matur á Nings...) og svo sprakk á hjólinu mínu á 100 km deginum, ég þurfti að fá sent annað hjól til að klára dæmið og missti af félagsskapnum, ekki spennandi...

Í ár var þetta bara gaman, veðrið lék við okkur allan tímann og ég var komin heim fyrir átta á 100 km deginum.  Rétt skutlaðist í sturtu áður en ég fór í frábæran saumaklúbb með hlaupavinkonum mínum.  Fullkominn endir á frábærum degi að fá að raða í sig heilsu gúmmelaði  og dreypa á sumardrykkjum í frábærum félagsskap.  Læfs gúdd :)   



  Komin heim!

22. maí 2010

Fjölnishlaupið 2010

Gekk alveg eins og í sögu en brautin er erfið, endar með langri brekku upp að Grafarvogslauginni úr Bryggjuhverfinu.  Rúllaði þetta án þess að vera með klukku og kunni bara vel við það.  Bara ánægð með tímann minn, 42:10 en það er tveim mínútum hraðar en í síðustu 10 km hlaupunum mínum.  Þriðja kona í mark og gull í aldursflokki.  Allt á réttri leið!  Fékk senda þessa mynd af mér sem er tekin þegar ég er rétt skriðin í mark, mér finnst hún flott.

19. maí 2010

Þríþrautar uppgjör

Félagi minn sótti mig snemma á sunnudagsmorgun í blíðskaparveðri og við lögðum í hann í Kópavoginn.  Ég veit ekki hvort ég var meira spennt fyrir mína hönd eða vina minna sem voru að fara að taka þátt í sinni fyrstu þraut...  Ég var vel stemmd, fann ekkert fyrir Neshlaupinu sem ég hljóp deginum áður og hlakkaði til að takast á við verkefni dagsins. 

Um leið og við komum upp í Kópavogslaug skokkaði ég með hjólið á skiptisvæðið og kom því fyrir þar, ásamt hjálmi og sólgleraugum.  Ég var búin að skipta yfir í venjulega pedala á hjólinu af því ég ætlaði að vera í hlaupaskónum, sleppa við skiptingar.  Á hjólaskiptisvæðinu fékk ég góða hjálp frá henni Bibbu minni sem skýrði út fyrir mér hjólaleiðina, brýndi fyrir mér að fara varlega og útskýrði hvernig skiptingarnar ættu að fara fram.  Eins vísaði hún mér hvert ég ætti að byrja að hlaupa, þ.e. upp grasbalann.  Ég hljóp svo upp í laug til að koma dótinu mínu fyrir en þegar ég var búin að því þá fór ég aftur niður á skiptisvæði til að tékka á hvort allt væri í orden.  Þá var einn starfsmaður á skiptisvæðinu og ég ákvað að nýta tímann og spyrja hann betur út í hlaupaleiðina.  Þvi miður vissi hann ekki annað en að það átti að hlaupa upp grasbalann.  Hann hafði ekki fengið neinar nánari upplýsingar á þeirri stundu (rúmlega 9) og gerði ráð fyrir að þetta yrði vel merkt.  Við það hljóp ég aftur upp í laug og gerði mig klára fyrir sundið.

Sund með skiptitíma á bakka - 9:03
Mér fannst mjög gott að vera ekki í hraðasta sundhópnum, miklu afslappaðri og ekki hrædd um að sprengja mig.  Ég reiknaði með að vera u.þ.b. 8 mínútur í sundinu og hef sennilega verið rétt um 8:30 sem er bara í fínu lagi, stökk upp á bakkann og klæddi mig í sokka, hlaupaskó og jakka áður en ég hljóp í gegnum tímatökuna.  Ég var 9. kona í gegnum tímatöku.

Skiptitími og hljól - 49 sek./ 23:15
Hljóp eins og vindurinn niður að hjóli og var ekki í neinum vandræðum með að setja á mig hjálm og sólgleraugu.  Svo gaman að blasta af stað niður brekkuna, sjá Bibbu á horninu og ná svo næstu mönnum.  Ég er, svona eftir á, ekkert sérstaklega ánægð með hjólatímann minn.  Var sennilega að spara mig fullmikið og ég sé að í svona stuttri þraut þá á maður bara að láta vaða alla leið, ekkert dekur!  Ég var 5. kona inn á hjólasvæði, var enga stund að hoppa af hjólinu og koma því fyrir á sínum stað, henda hjálminum af mér og hlaupa af stað upp grasbalann en þá var ég komin í 4. sætið.

Skiptitími og hlaup - 14 sek./12:34
Ég vissi að ég var með sterkustu hlaupurunum í hópnum og hlakkaði til að pikka upp sterku sundmennina.  Ég var hérna orðin örugg um að komast á pall og var harðákveðin í að gefa allt í hlaupið og freista þess að ná enn ofar.  Það voru 3 eða 4 hlauparar í augsýn á þessum tímapunkti og ég einbeitti mér að því að ná í skottið á þeim.  Upp grasbalann og svo áfram út götuna, beinustu leið...  Eftir 3-400 m sá ég að eitthvað var verulega bogið við þetta allt saman.  Fremsti maður stoppaði og klóraði sér í höfðinu, enginn starfsmaður svo langt sem augað eygði og að mér læddist hræðilegur grunur...  Allt í einu tekur fyrsti á rás inn á milli húsanna og hinir á eftir.  Panikk!  Ég á eftir og á þessari stundu geri ég mér grein fyrir mistökunum.  Andsk...   Hinu megin við húsin komum við inn á hjólaleiðina lengst fyrir neðan hringtorg og þá var ekkert annað að gera en að bíta á jaxlinn og pjakka upp brekkuna og koma sér inn á hlaupaleiðina.  Kom inn í hlaupabrautina á eftir 7. konu og náði henni eftir hálfan km eða svo.  Náði líka 6. og 5. konu á leiðinni og var 5. kona í mark á tímanum 45:55

Eftir þraut
Ég var alveg hrikalega frústreruð og gat engan veginn slakað á og spjallað, þannig að ég greip hjólið mitt aftur og reyndi að hjóla úr mér mestu gremjuna.  Gekk ekki betur en svo að þegar ég kom aftur að lauginni þá hjólaði beint á gangstéttakant og sprengdi hjá mér!  Gat nú ekki annað en brosað út í annað og hugsað til guttans míns, en það er alveg týpískt að ef hann fer í fýlu þá labbar hann á horn eða rekur sig í eitthvað...  Í heita pottinum var ég farin að geta óskað öðrum til hamingju, en það tók alveg daginn að sætta sig við vonbrigðin.  Eftir góðan nætursvefn þá gat ég með sanni sagt að þetta var ekki að trufla mig lengur og ég var bara spennt að taka þátt í næstu þraut. 

Það var samt eitt sem ég var ekki alveg sátt við, ja alveg þangað til í dag.  Það var að þrátt fyrir að fjöldinn allur af þátttakendum hafi lent í vandræðum á leiðinni, miklu fleiri en þeir sem hlupu aukalykkjuna því sumir voru svo heppnir að vera kallaðir inn á réttu leiðina og sluppu þannig, var að sumir sem komu að vinnu við þrautina vörpuðu ábyrgðinni algjörlega á keppendur og urðu bara fúlir yfir gagnrýni á brautarvörslu.  Ábyrgð keppenda er að sjálfsögðu stór, þeir eiga og gera það sem þeir geta til að tryggja að þeir þekki leiðina, það eru jú þeir sem borga mistökin dýru verði.  En mér finnst ábyrgð skipuleggjenda líka stór.  Ég heyrði starfsmann hreyta í keppanda að hann ætti að skammast sín fyrir að vera ekki með númer á treyjunni sinni en það voru bara alls ekki allir sem fengu númer.  Þegar ég kom til skráningar þá voru öll númerin búin...??? og okkur sagt að það væri nóg að vera með númer tússuð á handleggi og kálfa.  Á átta ára keppnisferli mínum (það kæmi mér svei mér þá ekki á óvart ef ég ætti met í að taka þátt í öllum mögulegum og ómögulegum, hlaupa-, hjóla-, tvíþrauta- og þríþrautarkeppnum) þá hef ég aldrei áður villst af leið. 

Þess vegna var sérstaklega ánægjulegt að fá góðan póst frá skipuleggjendum í dag, með samantekt á því sem betur mætti fara eftir ábendingar frá keppendum.  Þar gangast skipuleggjendur við sinni ábyrgð og biðja keppendur velvirðingar.  Fyrir mína parta þá var það allt og sumt sem vantaði og ég er fullkomlega sátt!

18. maí 2010

Þrisvar þrettán!

Ekki km, nei aldeilis ekki.  Dagurinn bara rétt að byrja og lífið leikur við mig.  Bóndi minn vakti mig með kossi og færði mér gjafir í morgunsárið, kanínupels kraga og eyrnalokka.  Kyssti börnin mín sofandi áður en ég lagði í hann út í daginn.  Hjólaði í blíðunni morgunhringinn minn sem er tæpir 30 km og naut þess að fá súrefni í kroppinn.  Ég fór í kjól í tilefni dagsins og vinnufélagarnir keppast við að knúsa mig til hamingju.  Ég er búin að kíkja nokkrum sinnum á Facebook til að hlýja mér enn meira um hjartaræturnar.  Hádegishlaupatúrinn var  sérstaklega rólegur í tilefni dagsins, með Oddi og Margréti, stórvinum mínum.  Gourmet í hádeginu hjá kokknum okkar að vanda og nú er förinni heitið til hans Reynis bakara sem var svo sætur að redda afmæliskökunni fyrir mig.  Ég veit vel hvað ég á það gott og er óendanlega þakklát.

13. maí 2010

Criterium og Leiknishlaup

Rétt hjá honum Oddi, engin ástæða til að vera öfugsnúin þegar það er svona gaman að lifa.  Í gærkvöldi var haldin önnur götuhjólakeppni sumarsins á Völlum í Hafnarfirði. Þetta var svokölluð Criterium keppni en þá starta allir saman í hóp og svo er hjólaði í 2 km hringi, karlar hjóla 15 en konur 10.  Ef maður er hringaður (gildir ekki milli flokka) þá klárar maður hringinn sem maður er á og hættir.  Það var töluverður vindur og á hluta leiðarinnar og svo var þessi fína brekka á öðrum hluta.  Hörku skemmtileg keppni, ég tók forystuna eftir fjóra hringi og hélt henni til loka.  Hjólaði 20 km á 41:42 sem er rúmlega 28 km/klst. meðalhraði, fínt miðað við aðstæður.  Það skemmtilegasta var þó að hún Margrét, vinkona mín úr vinnunni, sem var að keppa í fyrsta sinn á racer (sem hún keypti daginn áður) náði öðru sætinu og var rétt á eftir mér!!!  Spennandi hjólasumar framundan hjá okkur og nú bíðum við bara eftir að Sigrún vinkona fái líka hjól.   Hér eru úrslit og fleiri myndir!

Margrét, Eva og Steffi.

Í dag var það svo Breiðholtshlaup Leiknis.  Ég hef í gegnum tíðina notað keppnir til að koma mér í form, maður tekur alltaf aðeins meira á í keppnum en á venjulegum tempó æfingum. 'Brautin er 150 kílómetrum of löng': sagði konan í skráningunni.  'Meinarðu 150 metrum?'.   Skipti mig ekki máli þar sem ég var ekki að stefna á bætingu og bara með til gamans.  Brautin liggur niður Elliðaárdalinn og þar er hlaupin neðri hluti Powerade leiðarinnar.  Það var mjög mikill mótvindur niður dalinn og ég man ekki eftir að hafa áður þurft að hafa svona mikið fyrir því að hlaupa NIÐUR brekkur...  Líka skrýtið að koma að markinu í Powerade og eiga þá 2 km eftir, allt upp brekku!  En alla vega, þetta var bara þræl skemmtilegt og ég var fyrsta kona í mark og fékk að launum flottan blómvönd og bikar.  Þórólfur og Lilja tóku þátt í skemmtiskokkinu og  hlupu 2 km.  Þau tóku svo á móti mér í markinu, litla skottið stefnir í að verða hin besta klappstýra.  'Áfram mamma!!!'  Algjört krútt.


Nú er ég búin að taka þátt í 6 keppnum á síðustu 2 vikum og ég finn að ég verð sterkari með hverri áskorun.  Framundan er heilmikið fjör, Neshlaupið á laugardaginn, Kópavogs þríþraut á sunnudaginn og Fjölnishlaupið, sem er hluti af Powerade mótaröðinni á fimmtudaginn.  Ég reikna með að leggja mesta áherslu á góðan tíma í Fjölnishlaupinu.

11. maí 2010

Voðalega..

..gengur eitthvað illa að vera öfugsnúin.  Þetta er ekkert nema bullandi gleði blogg.  Hmprfff...  Bæti úr því við fyrsta tækifæri.

9. maí 2010

Mæðradagurinn

Við mömmurnar í fjölskyldunni fengum blóm í dag. Litla mamman var með þetta allt á tæru og ákvað fyrir pabba sinn hvað átti að kaupa og hvernig átti að pakka inn o.s.frv. Ég var nýkomin heim úr hlaupatúr þegar þau feðgin renndu í hlað og skvísan kallaði út um gluggann að ég ætti að loka augunum. Frábær dagur, nutum þessa að vera úti í góða veðrinu með börnunum okkar og svo vorum við hjónin að koma heim af bíó date-i. Læfs gúdd!
Posted by Picasa

8. maí 2010

Icelandair hlaup og Víðavangshlaup Íslands

Nú er lífið að komast í samt lag hjá gömlu og ég er eins og belja að vori, hoppandi glöð að geta hlaupið og hjólað  eins og mig lystir.  Nóg að gera núna, 'Hjólað í vinnuna' er byrjað og þá hrekk ég almennilega í hjólagírinn.  Er búin að hjóla 30 - 50 km á dag og dásama veðrið sem leikur við mig.

Icelandair hlaupið var á fimmtudaginn.  Þetta hlaup hefur reynst mér svakalega erfitt oftar en einu sinni.  Tvö ár í röð þá ætlaði ég aldeilis að massa þetta, hljóp af stað eins og brjáluð bína, sprakk með háum hvelli eftir 5 km og skreið síðustu tvo, á meðan hver hlauparinn á fætur öðrum tók fram úr mér.  Bæði árin endaði ég á nákvæmlega sama tíma upp á sek. 30:52, langt frá því sem ég ætlaði mér.

Í þetta sinn gekk allt eins og í sögu og betur ef eitthvað er.  Ég lagði upp með að hlaupa á 4:10 - 4:15 og sjá hversu lengi ég myndi endast.  Ekki vika síðan ég hljóp í Hérahlaupinu og þá var ég nær 4:30 svo væntingarnar voru algjörlega í hófi.  Fann mig strax vel og gat hlaupið mjög afslappað á inna við 4:10 svo þá var bara að rúlla þetta þægilega.  Náði í skottið á tveim skvísum eftir 3 km, hljóp með þeim næstu tvo og svo alveg öfugt við hin hlaupin, þá gat ég bara gefið í eftir 5 km.  Mjög gaman að vera sú sem tekur fram úr hverjum á fætur öðrum en ekki öfugt.  Var alsæl með tímann minn, 28:55 sem er 4:04 pace og í bónus fékk ég gull í aldursflokki en annars var ég fjórða kona í mark.   Fríða Rún sigraði, Sibba önnur og Hrönn þriðja.  

Í dag var svo Víðavangshlaup Íslands haldið í Laugardalnum, konurnar hlupu sex hringi eða 6,9 km.  ÍR tefldi fram sterkri kvennasveit sem m.a. innihélt okkur fjórar sem vorum í fyrstu sætunum í Icelandair hlaupinu.  Fríða Rún er lang sterkust af okkur og röðin var eins og á fimmtudaginn, en í dag náði ég að hlaupa með Sibbu og Hrönn alla leið, var bara 4 sek á eftir.  Sveitin okkar fékk flottan bikar og ég fæ að passa hann næstu 3 mánuði.  Lilja var ekki lítið ánægð með mömmu sína þegar ég kom heim aftur og fékk að setja nokkrar súkkulaðirúsínur í bikarinn, af því það var nammidagur!


Framundan er Criterium götuhjólakeppni á miðvikudaginn, Leiknishlaupið á fimmtudaginn, Neshlaupið á laugardaginn og Þríþraut í Kópavogi á sunnudaginn.  Já, fyrir utan stórafmælisveislu hjá vinkonu minni á laugardagskvöld og svo á gamla afmæli í næstu viku.  Það væri synd að segja að ég léti mér leiðast í þessu lífi mínu!


Lilja með bikarinn fyrir sigur í sveitakeppninni
Posted by Picasa

5. maí 2010

Komin með eyrnalokk!


Í gær fórum við Gabríel eftir vinnu og létum draum rætast.  Það er gaman.

Lilja er komin með eyrnabólgu og var frekar lúin seinnipartinn í gær eftir að þau feðgin komu heim af læknavaktinni.  Hún sofnaði í sófanum upp úr fimm í gær og vaknaði ekki aftur fyrr en rúmlega sex í morgun.  Þá var hún líka í besta skapinu sínu.
Posted by Picasa

3. maí 2010

Keppnishelgi

Það er svo gott að vera hraustur! 

Átti alveg hreint frábæra helgi sem meðal annars innihélt tvær keppnir og það er gaman.  Á laugardaginn mættum við hjónin í Hérahlaup Breiðabliks og bóndinn gerði sér lítið fyrir og sigraði á flottum tíma, 36:13.  Frúin var aðeins spakari og hugsaði þetta sem 'koma sér í form' hlaup.  Stefnan var sett á ca. 4:15 pace en einhvern veginn þá var miklu skemmtilegra að hlaupa á 4:25 :).  Fríða Rún var lang fyrst og næsta kona á eftir mér var hvergi í augsýn og þá er voðalega freistandi að fara bara á gleðinni, sérstaklega ef maður er hvort eð er ekki að fara að bæta tímann sinn.  Ég var líka komin með hugann hálfpartinn að næstu áskorun en það var fyrsta götuhjólakeppni sumarsins.


Við vorum fjögur sem ákváðum að skella okkur suðureftir saman.  Oddur og Margrét sem eru vinnu- og hlaupavinir mínir og svo Sigrún vinkona mín.  Flott veður og ég held að við höfum öll verið að deyja úr spenningi.  Hrikalega gaman hjá okkur og hörkukeppni í kvennaflokknum en þar áttumst við við, ég og Ásdís Kristjáns, hlaupafélagi minn úr ÍR.   Náði að sigra á endaspretti dauðans en það munaði ekki nema 2 sek. á okkur stöllum.  Svona á þetta að vera!

Allir að gera sig klára fyrir keppni, Vignir, Eva, Oddur, Margrét og Ásdís.

Ásdís, Eva og Hrönn
Ljósmyndari: Kiddi - Myndir og úrslit á http://www.hfr.is/

1. maí 2010

Kjóllinn

Lilja bað um bleikan prjónakjól eins og vinkona hennar var að fá og þá var bara að bretta upp prjóna-ermarnar. Fann uppskrift af krúttlegu vesti sem ég breytti aðeins og úr varð kjóll. Lilja hélt tískusýningu fyrir okkur og þá labbaði hún á táslunum: 'Mamma, er þetta ekki svona tískusýningar...?'.
Posted by Picasa