Sonur minn hefur alltaf verið alsæll með það að vera brúnn, en þannig skilgreinir hann sjálfan sig. Við höfum í gegnum tíðina oft tekið þessa umræðu og ég hef aldrei fundið fyrir því að hann sé á nokkurn hátt ósáttur eða leiður yfir því að vera öðruvísi. Þvert á móti. Hann er ánægður með húðlitinn sinn, honum finnst gaman að geta safnað afró-i og hann sér að hann á eitthvað sameiginlegt með mörgum af sínum fyrirmyndum úr íþróttaheiminum (hmmm já, ég er þá ekki að tala um einkalífið...).
Um daginn vorum við að rölta í Kringlunni og mættum 'brúnni' fjölskyldu. Maðurinn nikkaði til Gabríels þegar hann gekk framhjá. Gabríel nikkaði til baka og brosti hringinn. Hann sagði mér þvílíkt spenntur: 'Mamma, veistu að þegar brúnir hittast, þá heilsast þeir þó þeir þekkist ekki neitt!'.
Á miðvikudaginn var Gabríel að keppa í Reykjavíkurmótinu með Þrótti á mót Víking. Þeir unnu leikinn 4-0 og Gabríel skoraði eitt mark. 'Mamma, þetta voru allt brún mörk!' Ha..? Félagi hans í Þrótti sem er líka brúnn, skoraði hin þrjú mörkin.
Það eru spennandi tímar framundan hjá stráknum okkar og öllum í fjölskyldunni. Við mæðginin og mamma mín, ætlum að heimsækja pabba hans í Ameríku í sumar. Gabríel fær þá að hitta allt föðurfókið sitt í Ohio í fyrsta sinn, en hann á heilan helling af frænkum og frændum, mörg á svipuðum aldri og hann sjálfur. Mikið verður gaman að sjá hann fá að upplifa að vera einn af fjöldanum en ekki 'þessi brúni'.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli