29. apr. 2010

Hjólað í vinnuna

Hjólin voru græjuð í vikunni og í dag sveif ég í vinnuna, svo gott að vera laus við nagladekkin.  Nú er bara spurning um að setja sig í hjóla keppnisgírinn líka, alla vega nóg í boði framundan.

Fyrsta góða hlaupaæfingin mín í mánuð í gær.  Frábært að geta tekið á því án þess að hafa áhyggjur af heilsunni.  Þarf samt greinilega nokkrar vikur í að komast á minn stað aftur.  Skrýtið að halda ekki í við félagana sem voru á sama stað og ég fyrir nokkrum vikum...  En það er bara skemmtileg áskorun að ná í skottið á þeim og heldur manni svo sannarlega við efnið.

Þar fyrir utan er ég aftur að verða gekt mjó eftir að hafa fitað mig aðeins í pestarveseninu.
Lífið er gott.

27. apr. 2010

Hjarðhegðun

Mér fannst áhugavert að heyra um hjarðhegðun í Kastljósinu í kvöld.  Mér finnst nefnilega alveg magnað hvernig skoðanir fólks geta sveiflast til og frá eftir því sem vindar blása.  Engin sjálfstæð hugsun, enginn kjarkur.  Þá er ég samt ekki að meina að það sé manni ekki hollt að skipta um skoðun öðru hvoru.  Mér finnst svo gaman þegar einhver fær mig til þess, að vel íhuguðu máli og með góðum rökum.   

Sama fólk og vílar ekki fyrir sér að svíkja undan skatti ef það getur, verður fjólublátt í framan af reiði vegna þess að einhver annar þáði óhóflega háan styrk.  Eitthvað segir mér að sá sem svíkur undan skatti, já t.d. með því að gefa ekki upp leigutekjur (ólöglegt), myndi vera fljótur að stinga feitum styrk (löglegt) í rassvasann, fengi hann tækifæri til þess, sama hvaðan hann kæmi.

Ég sá spennuþátt um daginn.  Plottið gekk út á það að ung kona komst yfir lottómiða sem hún átti ekki og á var risavinningur.   Þeir sem stóðu henni næst, vinir hennar og kærasti, vissu hvernig hún hafði komist yfir miðann en hvöttu hana engu að síður til að taka á móti vinningnum.  Jú, reglum samkvæmt þá var hún vinningshafinn þangað til annað kom í ljós.  Að sjálfsögðu endaði þetta allt saman með ósköpum.  Alveg sama hvað þú reynir að réttlæta svona hegðun, það gengur bara ekki.  Ekki til lengdar.

Ég hef sjálf upplifað að vera í hópi fólks sem reyndi að sannfæra mig um að, jú það væri í lagi og ekki bara í lagi, heldur sjálfsagt að taka á móti verðlaunum sem þú hefur ekki unnið til, svo lengi sem þú kemst upp með það.  En hvað með rétt og rangt?  Það skiptir ekki máli.  

Ég held að ekkert sé manni hollara en að komast burt úr hjörðinni, hvort sem maður er rekinn eða forðar sér sjálfur.  Fáir eru nefnilega svo gegnheilir að þeir séu algerlega ónæmir fyrir hjarðhegðuninni.

26. apr. 2010

Aumingja gulrótin

Hún Lilja okkar tók að sér að hýsa eina pestina enn, en það var líka sú síðasta fram að fermingu takk.  Í veikindum heima er mikið horft á imbann og við vorum svo heppinn að fá lánaða nýja spólu, Ávaxtakörfuna, hjá vinkonu okkar.  Myndin hafði mikil áhrif á hana Lilju og hún var alveg miður sín yfir því hvað ávextirnir voru vondir að leggja gulrótina í einelti.  Mamma, mamma, við verðum að hringja í hana Franzínu mús!  Ha...  Ég fékk skýringar á því og eins sjá má hér!

18. apr. 2010

Athugasemdakassi

Við búum rétt við Laugardalslaugina.  Í flestum tilfellum keyrum við í annan bæjarhluta eða annað bæjarfélag til að fara með krakkana okkar í sund vegna þess hversu léleg aðstaðan er fyrir litla krakka í Laugardalnum.  Ég veit að við erum ekki þau einu sem skiljum ekki hvers vegna ekki er hægt að henda upp einni smábarnalaug með smá gosbrunni eða eitthvað fyrir yngstu krakkana, þetta þarf ekki að vera flókið...

Það er komin voða flottur athugasemdakassi í Laugardalslaugina.  Vinsamlegast skrifið niður ábendingar eða kvartanir á miða og setjið í kassann.  Það er enginn penni hjá kassanum og engir miðar.

16. apr. 2010

Brún mörk

Sonur minn hefur alltaf verið alsæll með það að vera brúnn, en þannig skilgreinir hann sjálfan sig.  Við höfum í gegnum tíðina oft tekið þessa umræðu og ég hef aldrei fundið fyrir því að hann sé á nokkurn hátt ósáttur eða leiður yfir því að vera öðruvísi.  Þvert á móti.  Hann er ánægður með húðlitinn sinn, honum finnst gaman að geta safnað afró-i og hann sér að hann á eitthvað sameiginlegt með mörgum af sínum fyrirmyndum úr íþróttaheiminum (hmmm já, ég er þá ekki að tala um einkalífið...).

Um daginn vorum við að rölta í Kringlunni og mættum 'brúnni' fjölskyldu.  Maðurinn nikkaði til Gabríels þegar hann gekk framhjá.  Gabríel nikkaði til baka og brosti hringinn.  Hann sagði mér þvílíkt spenntur: 'Mamma, veistu að þegar brúnir hittast, þá heilsast þeir þó þeir þekkist ekki neitt!'.   

Á miðvikudaginn var Gabríel að keppa í Reykjavíkurmótinu með Þrótti á mót Víking.  Þeir unnu leikinn 4-0 og Gabríel skoraði eitt mark.  'Mamma, þetta voru allt brún mörk!'  Ha..?   Félagi hans í Þrótti sem er líka brúnn, skoraði hin þrjú mörkin.

Það eru spennandi tímar framundan hjá stráknum okkar og öllum í fjölskyldunni.  Við mæðginin og mamma mín, ætlum að heimsækja pabba hans í Ameríku í sumar.  Gabríel fær þá að hitta allt föðurfókið sitt í Ohio í fyrsta sinn, en hann á heilan helling af frænkum og frændum, mörg á svipuðum aldri og hann sjálfur.   Mikið verður gaman að sjá hann fá að upplifa að vera einn af fjöldanum en ekki 'þessi brúni'.

15. apr. 2010

Borgarastyrjaldir og eldgos

Mamma mín er alin upp á eyjunni Madagaskar í Afríku.  Í fyrra, um Páskana, pantaði hún sér ferð þangað ásamt bróður sínum í Noregi.  Þau syskin ætluðu að rifja upp gamla daga, heimsækja gamla heimilið og skólann sinn, fara að leiði systra sinna sem þau misstu, bara eins og þriggja ára gamlar og bara njóta þess að vera saman á æskuslóðunum.

Ferðinni var aflýst vegna þess að það skall á borgarastyrjöld í Madagaskar og ferðamönnum var ekki óhætt að vera í landinu.

Á mánudaginn fór mamma til Noregs.  Þau syskin ætluðu að freista gæfunnar á ný, nú er friður í landinu og allt á tæru.  Vélin þeirra átti að fara núna um hádegi í dag frá Osló.

Allt flug liggur niðri  í Noregi vegna eldgoss á Íslandi!!!

13. apr. 2010

Fyrsta ballett sýningin


Lilja stóð sig eins og hetja í frumraun sinni á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu. Litlu ballerínurnar dönsuðu stjörnudansinn og eftir sýningu fengu listamennirnir blóm. Gabríel færði henni bleika gerberu og ég veit ekki hvert litla skvísan okkar ætlaði, hún var svo stolt og glöð.  Ef maður smellir á myndirnar þá er hægt að skoða þær í fullri stærð.
Posted by Picasa

12. apr. 2010

Í stíl



Var að klára peysuna hennar Lilju úr afgöngunum :)
Posted by Picasa
Ótrúlegt hvað hægt er að skemmta sér vel með eina litla flautu!

9. apr. 2010

Tannlæknafóbía

Hérna áður fyrr þjáðist ég af heiftarlegri tannlæknafóbíu, sem átti sennilega rætur sínar að rekja til skólatannlæknis sem var ekkert sérstaklega mjúkhentur og fannst ekker gaman í vinnunni sinni.  Þegar barnaskólanum lauk fór ég til fjölskyldu tannlæknisins sem er einstakur öðlingur, en engu að síður gat ég látið mér kvíða óendanlega mikið fyrir hverjum tíma og bað um eins mikla deyfingu og hægt var.  Samt fann ég alltaf til.  Algjör martröð.

Það var svo fyrir svona 10 árum að ég las bók sem fjallaði um fóbíur og hvernig þær eru áunnar og síðan viðhaldið af mikilli natni af viðkomandi.  Fyrir mér er flugu eða köngulóafóbía alveg út í hróa, en í þessari bók voru þær settar í sama flokk og tannlæknafóbía.  Hmmm...

Ef fóbía er áunnin andsk... þá er það lógískt að hægt sé að losa sig við fóbíur.  Ég byrjaði markvisst að vinna í því að slaka á fyrir tannlækna heimsóknir, fara í skoðun reglulega og oftar en áður o.s.frv.  Ég steinhætti að tala um að ég hefði þessa fóbíu.   

Smátt og smátt hvarf hún líka.  Hljóðið í bornum sem boraði sig inn í heilann á manni svo maður var skjálfandi á beinunum, hætti að trufla mig en núna verð ég bara syfjuð þegar ég heyri svona borhljóð.   Fyrir nokkrum árum þegar það þurfti að skipta út gamalli og ónýtri fyllingu, þá spurði ég tannlækninn hvort við ættum ekki bara að sleppa deyfingunni og sjá til hvort ég fyndi nokkuð fyrir þessu.  Það gekk eins og í sögu.

Á mánudaginn fór ég í rótfyllingu í fyrsta sinn.  Engin deyfing.  Fann ekkert til. Mission accomplished.

5. apr. 2010

Páskaungarnir okkar




Og svo smá sýnishorn af okkar páskum:
Posted by Picasa

Alltaf jafn gaman að segja: Gleðilega páska, Lilja :)

Málshátturinn minn :)

Það verður að segja svo hverja sögu sem hún gengur.