Hérna sit ég á herberginu mínu á Hótel Þórshamri og læt fara vel um mig. Ekkert flug í dag, tvísýnt með það á morgun...
Er búin að eiga alveg frábæran tíma hérna í Eyjum. Fólkið hérna minnir mig eiginlega mest á Ástrali, þ.e. einstaklega vinalegt og þægilegt i umgengni, kraftmikið og stútfullt af húmor. Hér líður mér vel.
Ég er alveg upprifin eftir að hafa upplifað heilsueflingardaginn hérna í Eyjum. Dagurinn hjá mér byrjaði á fyrirlestri fyrir fullum sal áhugasamra Eyjamanna. Eftir fyrirlesturinn sat ég fyrir svörum í hálftíma og svo hlupum við saman. Kraftmiklir hlauparar sem létu brekkur og rok ekkert á sig fá. Hópurinn er með háleit markmið um að halda keppnishlaup og það veit sá sem allt veit að hafi ég nokkur tök á, þá verð ég fyrst til að mæta á ráslínu!
Ég sá ekki betur en að annar hver íbúi, ef ekki meira, hafi gert sér ferð í íþróttahúsið í dag. Eftir hlaupið sat ég góðan fyrirlestur um næringu og heilsu og svo skelltum við okkur í heita pottinn, en Eyjamenn eru að byggja upp fyrirmyndar sundaðstöðu á staðnum. Á meðan við sátum í heita pottinum skall á okkur risa haglél og þrumuveður ægilegt. Við sáum hvern blossann á fætur öðrum og töldum þar til við heyrðum drunurnar og rétt náðum upp í 10 með því að telja mjög hratt. Þegar presturinn lét sig hverfa út pottinum, eftir að hafa sagt okkur nokkrar sögur af mönnum sem höfðu bókstaflega soðnað við þessar aðstæður, þá vorum við fljótar að elta hann. Enduðum daginn á því að fara í yoga tíma, gott að teygja á og taka góða slökun eftir annasaman dag.
Sakna fólksins míns, en að öðru leyti þá hef ég það ótrúlega gott. Ég rölti út áðan, eftir smá kríu, til að fá mér bita og þá fékk ég afhentan lykil af hótelinu (ekki herberginu :), just in case, ef ég myndi vera seint á ferð... Í gær hrökk ég heldur betur við þegar ég rigsaði í eigin heimi úr ræktinni upp á hótel, þegar táningspiltur sem var að moka snjó úr innkeyrslu kallað hátt og skýrt til mín: 'Góðan daginn'. Notalegt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli