Ég hlustaði á fyrirlestur hjá fyrrum kennara mínum, Þorvaldi Þorsteinssyni, um daginn. Hann talaði um hvað það hefði verið erfitt og þvingandi að vera alltaf góði strákurinn í gamla daga. Það væri mikið frelsi fólgið í því að vera ólíkindatól, að vera listamaður sem mætti bara gera það sem honum sýndist. Hann talaði líka um skrif og ég fann, eftir að hafa hlustað á hann að ég saknaði þess að skrifa, þó ég hafi ekki saknað þess að blogga. En hjá mér er þetta einhvern veginn samhangandi, ég skrifa ekki mikið á blað.
Ég fékk þá hugmynd að byrja að skrifa upp á nýtt en á öðrum forsendum en áður. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim var að skrifa smásögu. Eiginlega dæmisögu. Hún er ekki fyrir viðkvæma og ég vara ykkur við, ég á eftir að setja hana inn hérna. Kannski á morgun eða hinn.
Það er oft sagt í byrjun á amerískum dramaþáttum að 'persónur og atburðir í þessum þætti eiga sér engar fyrirmyndir í raunveruleikanum'. Ég er ekki að segja það. Ef þú heldur að þú sért fyrirmynd af sögupersónu, þá myndi ég skjóta á að það væru svona 99,9% líkur á að þú hefðir rétt fyrir þér. Og ég nenni ekki að ræða það frekar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli